Ráðherra og ríkissáttasemjari sungu saman

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari og Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra brustu í morgunsöng.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari og Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra brustu í morgunsöng. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umferðarþing hófst í Gamla bíói í morgun og er þar til umræðu um umferðarmenningu á Íslandi og mikilvægi sáttar í samskiptum fólks í umferðinni.

Samgöngustofa stendur fyrir þinginu ásamt aðkomu ríkissáttasemjara en áhersla þess er að leiða saman ólíka hópa vegfarenda til samstöðu og sátta í umferðinni.

Innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir og ríkissáttasemjari, Ástráður Haraldsson, stigu á svið saman og efndu til hópsöngs á Vikivaka í morgunsárið. Fór afar vel á milli ráðherra og ríkissáttasemjara en þess má geta að þau eru fyrrum hjón.

Fulltrúar akandi, hjólandi, gangandi, ríðandi, strætó, vöruflutningabíla, rafhlaupahjóla og mótorhjóla halda tölu á þinginu og sitja pallborð um uppbyggjandi viðræður.

Umferðarþing fór fram í Gamla bíó í dag.
Umferðarþing fór fram í Gamla bíó í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

17,5 milljónir í Strætó árið 1962

Ráðherra opnaði málþingið og sagði umræðuna um umferð og mismunandi fararmáta vera að þroskast. Kvaðst ráðherra að gamni sínu hafa flett upp dagskrá sams konar þings fyrir 20 árum, nánar tiltekið árið 2004.

„Umferðarþingið stóð í tvo heila daga og það voru 20 erindi sem öll fjölluðu um bíla. Hvert eitt og einasta.“ 

Segir hún því lengi hafa verið haldið fram að Íslendingar væru bílaþjóð. Ýmsar skoðanagreinar hafi birst í fjölmiðlum þar sem því sé haldið fram að óraunhæft sé að gera áætlanir til framtíðar sem geri ráð fyrir að fleiri noti almenningssamgöngur.

Engu að síður hafi strætófarþegum fjölgað um 60% frá árinu 2004. Sömuleiðis bendir Svandís á að fyrsta talning strætófarþega árið 1962 hafi talið 17,5 milljónir í borg sem þá taldi 75 þúsund íbúa.

Svandís segir það ekki í erfðarmengi Íslendinga að vera bílaþjóð.
Svandís segir það ekki í erfðarmengi Íslendinga að vera bílaþjóð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hraðbraut í gegnum grjótaþorpið

Niðurstaða aðalskipulagsins á þeim tíma hafi aftur á móti verið að til framtíðar þyrfti að tryggja að allir borgarbúar ættu og gætu komist leiða sinna á bíl.

„Teiknað var upp stofnvegakerfi með Miklubraut, Sæbraut í gegnum Fossvoginn, Elliðaárdalinn og sérstakri hraðbraut í gegnum Grjótaþorpið,“ segir Svandís.

„Sumt af þessu komst til framkvæmda en ekki allt, eins og gengur. En grunnmarkmiðið tókst og er umhugsunarefni, þ.e. að auka vægi bílaumferðar. Það tókst raunar „svo vel“ að mörg okkar sitja enn í bílatöfum á hverjum degi.“

Það sé því ekki í erfðamengi Íslendinga að keyra bíl. Það sé mannanna verk, pólitísk ákvörðun sem hafi verið tekin fyrir okkur á árum áður. Því sé mikilvægt að horfa til framtíðar og átta okkur á því að umferð og faramátar séu fjölbreytt.

„Við erum ekki bílaþjóð frekar en aðrar þjóðir.“

Mikilvægt er að sýna umburðarlyndi og leita sátta í umferðinni …
Mikilvægt er að sýna umburðarlyndi og leita sátta í umferðinni ef eitthvað kemur upp á að sögn ríkissáttarsemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Förum í boltann ekki í manninn“

Tók Ástráður til máls á eftir Svandísi og ræddi mikilvægi samskipta og sáttarleiða í umferðinni. Auðvelt væri að reiðast og taka framgöngu annarra nærri sér í umferðinni en að umburðarlyndi við aðra vegfarendur á mismunandi fararmátum væri engu að síður brýnt.

Bifreiðar eigi til að vera meira en fararmáti fyrir ákveðnar kynslóðir og séu gjarnan eins konar stöðutákn fyrir menn á hans aldri. Því geti fokið í fólk þegar lítill og ryðgaður bíll svíni fyrir mann á stóra bílnum.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að sama hvert ökutækið er þá erum við ekki öðrum æðri og þegar skaðinn skeður og kannski óbætanlegt tjón orðið. Þá er gamli frasinn „Ég átti réttinn“ afskaplega lítil huggun,“ segir Ástráður.

„Við skulum reyna að forðast að benda á aðra eða búa til sökudólga og við skulum reyna að haga framsetningu okkar þannig að við séum málefnaleg og aðrir séu líklegri til að vilja hlusta á það sem við höfum að segja (...) Við skulum fara í boltann en ekki manninn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert