Styrkja getu til að mæta öryggisáskorunum

Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins undirritaði tillögurnar fyrir Íslands hönd.
Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins undirritaði tillögurnar fyrir Íslands hönd. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Í dag voru undirritaðar tillögur að frekari útfærslu varnarsamstarfs Norðurlanda (Nordic Defence Concept). Aðild Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu opnar á það tækifæri að efla varnarsamvinnu Norðurlanda.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

„Tillögurnar mynda stefnuramma utan um svæðisbundna samvinnu ríkjanna á hermálahliðinni og bæta getu þeirra til að mæta sameiginlegum áskorunum í öryggismálum hvort sem er á tímum friðar, spennu eða átaka,“ segir í tilkynningunni.

Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins undirritaði tillögurnar fyrir Íslands hönd.

Tillögurnar lúta að því að bæta samstarfið

Í apríl var ný lang­tíma­stefna fyr­ir nor­rænt varn­ar­sam­starf (NORDEFCO) til árs­ins 2030 undirrituð af varn­ar­málaráðherrum Norður­land­anna.

Tillögurnar sem nú var verið að skrifa undir lúta að því að bæta varnarsamstarfið og hjálpa til við að ná markmiðum langtímastefnunnar.

„Tillögurnar voru þróaðar innan NORDEFCO samstarfsins og endurspegla sameiginlegar skuldbindingar um að styrkja fælingu og varnir Norðurlandanna og Evró- Atlantshafssvæðisins á grundvelli aðildar að Atlantshafsbandalaginu,“ segir í tilkynningunni.

Vinna að því að styrkja viðbúnað

Fram kemur að framtakið sé mikilvægt skref í varnarsamstarfi Norðurlandanna sem tryggir að löndin séu vel undir það búin að takast á við þær öryggisáskoranir sem kunna að skapast.

„Stefnuramminn um norrænar varnir styrkir ekki eingöngu varnargetu ríkjanna heldur styður hann við hlutverk þeirra sem áreiðanlegra bandamanna innan Atlandshafsbandalagsins. Þá munu ríkin vinna að því að styrkja viðbúnað sinn til samræmis við breyttar öryggishorfur,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert