Sýknaður af ákæru um manndráp af gáleysi

Fram kemur í dómi héraðsdóms að ökumaðurinn hafi sjálfur hringt …
Fram kemur í dómi héraðsdóms að ökumaðurinn hafi sjálfur hringt í Neyðarlínuna til greina frá því að hann hefði ekið á gangandi vegfaranda. Ökumaðurinn var í miklu uppnámi og grét mikið. Á vettvangi kvaðst hann hafa ekið á um 15 km/klst. hraða en aldrei séð vegfarandann. Ljósmynd/Colourbox

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra sem féll í nóvember, en þar var maður sýknaður af ákæru um manndráp af gáleysi.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra ákærði manninn í apríl 2023 fyrir manndráp af gáleysi og umferðarlagabrot með því að hafa árið 2022 ekið bifreið á gangandi vegfaranda sem hlaut við það svo mikla áverka á höfði að hann lést um sólarhring síðar.

Með dómi héraðsdóms var maðurinn sýknaður á þeim grundvelli að ekki væri talið sannað að hann hefði brotið gegn varúðarskyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 19. gr. umferðarlaga og valdið andláti vegfarandans með saknæmu gáleysi.

Gátu ekki sýnt fram á gáleysi við akstur

Í dómi Landsréttar var tekið fram að maðurinn yrði sýknaður af broti gegn ákvæðinu nema ákæruvaldinu tækist að sýna fram á, þannig að ekki yrði véfengt með skynsamlegum rökum, að vegfarandinn hefði látist sökum gáleysis af hálfu ökumannsins.

Dómurinn taldi ekki að ákæruvaldinu hefði lánast að færa nægar sönnur á að aksturslag ökumannsins hefði verið því marki brennt.

Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um sýknu ökumannsins af öllum kröfum ákæruvaldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert