„Tala má um rányrkju“

Á kortinu má sjá hvar rukkað er fyrir aðgang að …
Á kortinu má sjá hvar rukkað er fyrir aðgang að bílastæðum á ferðamannastöðum. Ljósmynd/FÍB

Í nýrri ályktun sem Félag íslenskra bifreiðaeiganda sendi frá sér fyrr í dag setur félagið út á gjaldtöku á bílastæðum við ferðamannastaði.

Ályktun ber yfirskriftina „Hemja þarf rányrkju bílastæðafyrirtækja á ferðamannastöðum“ en í henni er rakið hvernig á meira en 30 áfangastöðum ferðamanna víða um land eru að jafnaði rukkaðar 1.000 kr. fyrir að leggja bíl og að ef ekki er gengið frá greiðslu samdægurs fær bíleigandinn senda kröfu um 4.500 kr. vangreiðslugjald til viðbótar.

„Á flestum þessara staða er nýlega byrjað að rukka fyrir bílastæði sem áður voru gjaldfrjáls, án þess að nokkuð hafi breyst sem útskýrir eða réttlætir gjaldtökuna,“ segir í upphafi ályktunarinnar.

Gengið út í öfgar

Þá kemur fram að FÍB hafi fengið fjölmargar kvartanir vegna innheimtunnar.

„Kvartað er undan þeim skamma tíma sem ferðafólki er gefinn til að greiða fyrir bílastæði, ruglingshættu milli bílastæða, einokun á greiðsluleiðum og óútskýrðum háum vangreiðslukröfum. Kvartað er undan því að á óskipulögðum malarstæðum er sama 1.000 kr. gjald tekið og á þeim örfáu bílastæðum sem eru til fyrirmyndar og bjóða upp á salernisaðstöðu.“

Þá segir að FÍB telji að gjaldtaka á bílastæðum á ferðamannastöðum sé gengin út í öfgar, ekki síst með háum vangreiðslugjöldum.

„Tala má um rányrkju í ljósi þessara ósanngjörnu viðskiptahátta. Þarna eru lóðarhafar, landeigendur og bílastæðafyrirtæki að fénýta sér aðkomu að náttúrperlum.

Einatt er fullyrt að fjármunirnir fari í uppbyggingu aðstöðu. Svo virðist vera í einstaka tilfellum, en víðast hvar er meint uppbygging í engu samræmi við gjaldtökuna,“ segir í ályktuninni

Hefur neikvæð áhrif á almenning

Sömuleiðis ályktar FÍB að innheimtan hafi neikvæð áhrif á almenning.

„Vart þarf að nefna þau neikvæðu áhrif sem þessi útbreidda og vaxandi innheimta hefur fyrir almenning og ferðaþjónustuna, ekki síst þegar engin ástæða virðist vera fyrir gjaldtökunni. [...]

Íslendingar eiga því að venjast að gera notið náttúrunnar í frjálsri för um landið, enda er almannarétturinn ríkur. Stórfelld gjaldtaka á bílastæðum við náttúruperlur gengur gegn þessum hefðum og eyðileggur þá ásýnd sem við viljum hafa af landinu.“

Þá er talað um að á mörgum þeirra áfangastaða sem um ræðir hafi Framkvæmdasjóður ferðamannastaða staðið straum af stórum hluta uppbyggingar og endurbóta.

„Framlög úr sjóðnum nema hundruð milljónum króna á hverju ári. Víðast hvar hafa framlög fengist gegn því að aðgangur að náttúruperlum sé gjaldfrjáls. Lóðarhafar og landeigendur fara í kringum þetta með því að krefjast greiðslu fyrir bílastæðin,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert