Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í óvenjulegu verkefni í gær þegar hún flutti flugleiðsögubúnað á Ingólfshöfða fyrir Isavia ANS, sem er dótturfélag Isavia.
Beðið var eftir rétta veðrinu fyrir þetta vandasama verkefni. Fyrir utan áhöfnina voru tveir starfsmenn frá Isavia ANS um borð í þyrlunni. Á höfðanum voru síðan þrír starfsmenn fyrirtækisins staddir, auk erlends sérfræðings sem annast uppsetninguna á búnaðinum.
Ingólfshöfði, sem er 1.200 m langur og 750 m breiður klettahöfði, er í Austur-Skaftafellssýslu, syðst í Öræfum. Hann var friðlýstur árið 1978.
Ástæðan fyrir því að þyrla Gæslunnar sá um verkefnið var sú að búnaðurinn var um tvö og hálft tonn að þyngd og ráða engar aðrar þyrlur á landinu við slíkt. Mest geta þær borið um eitt tonn. Ekki þótti ganga upp að fara með krana út í eyjuna með tilheyrandi vandkvæðum og skemmdum á umhverfinu, að sögn Hans Liljendal Karlssonar, sviðsstjóra tæknisviðs hjá Isavia ANS.
„Í rauninni er mjög krefjandi að koma þessum búnaði út í eyjuna. Þetta er mjög viðkvæmt svæði, varðandi gróður og annað slíkt. Það er einstök náttúra sem þarf að gæta að þarna,“ segir Hans aðspurður og nefnir að svokallað jarðnet sé hluti af búnaðinum sem var fluttur á höfðann. Hann er níu metrar í þvermál.
Jarðnetið var sett saman við Freysnes og flutt það með þyrlu Gæslunnar. Hún kom netinu fyrir yfir tækjahúsinu á undirstöður sem búið var að undirbúa. Til að þyngd jarðnetsins væri ekki yfir tvö tonn í flutningi voru einungis fjórir af átta fótum netsins áfastir jarðnetinu í flutningi.
Verkefnið í heild sinni gekk eins og í sögu, að sögn Hans.
Búnaðurinn á Ingólfshöfða, sem nefnist VOR/DME, var upphaflega settur þar upp árið 2001 og var kominn tími á endurnýjun sem þessa. Hann gegnir hlutverki sem leiðsögubúnaður fyrir flugvélar á leið yfir norðanvert Atlantshafið. Um öryggisbúnað er að ræða þar sem almenn flugumferð reiðir sig á nútímalegri búnað sem byggir á GPS-staðsetningartækni. Þessi nýi flugleiðsögubúnaður mun m.a. auðvelda eftirlit með honum en hann er í fjarvöktun hjá flugstjórnarmiðstöð Isavia ANS á Nauthólsvegi.
Kostnaðurinn við verkefnið er áætlaður um 70 milljónir króna og er hann að langstærstum hluta fjármagnaður af notandagjöldum. Annars vegar yfirflugsgjöldum og hins vegar af flugvöllum sem innheimta lendingargjöld. Engir peningar koma frá ríkinu eða úr fjárlögum.
Isavia ANS þjónustar um 200 þúsund flug á ári í flugstjórnarsvæðinu og hefur aukning í yfirflugi verið liðlega 8% frá 2023 og spáð er frekari aukningu á næstu árum.