Tveir karlmenn um tvítugt voru í dag úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 17. október í Héraðsdómi Reykjaness.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að mennirnir séu grunaðir um fjölda brota, meðal annars nokkur rán á höfuðborgarsvæðinu í ágúst.
Mbl.is greindi frá því fyrr í mánuðinum að lögreglan væri að rannsaka nokkur mál er varða hótanir, líkamsmeiðingar, rán og ofbeldi í garð drengja í Hafnarfirði.
Þá sagði Sævar Guðmundsson aðalvarðstjóri að mennirnir væru á aldrinum 21-23 og að þeir væru grunaðir um nokkur alvarleg brot á mismunandi tíma.
Þeir hefðu ógnað drengjum, hótað að nota hnífa, stolið fatnaði af drengjum og krafið þá um að millifæra fé í gegnum farsíma þeirra.
Atvikin áttu sér öll stað í Hafnarfirði, við Hraunvallarskóla, á Víðistaðatúni og við verslunarmiðstöðina Fjörð.