Fjölskylda manns sem starfaði hjá Icelandair sem flugmaður hefur óskað eftir því við lögreglu að andlát hans verði rannsakað. Maðurinn hét Sólon Guðmundsson en hann féll fyrir eigin hendi 25. ágúst eftir að flugfélagið tók fyrir mál sem tengdust honum.
Greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 en þar segir að Sólon hafi starfað hjá Icelandair frá árinu 2018.
Í apríl er Sólon sagður hafa lagt fram kvörtun til mannauðsdeildar Icelandair vegna eineltis sem hann kvaðst hafa orðið fyrir af hálfu tveggja samstarfskvenna sinna.
Hödd Vilhjálmsdóttir, talskona fjölskyldunnar, sagði í kvöldfréttum að hið meinta einelti hafi falist í einhliða frásögn kvennanna af sambandi Sólons við aðra þeirra. Hún sagði að flugfélagið hefði ekki tekið eineltiskvörtunina til skoðunar þar sem konunni væri frjálst að tjá sig um sína upplifun.
Hödd sagði að sögusagnirnar hefðu haldið áfram og dreift sér innan veggja fyrirtækisins sem og utan þess. Var líðan Sólons orðin mjög slæm.
Sólon var svo boðaður á annan fund með mannauðsdeild Icelandair þann 22. ágúst þar sem honum var tjáð um ásakanir á hendur honum en hann fékk ekki að vita hverjar ásakanirnar væru.
Hödd sagði að þar hefði Sólon verið þvingaður til þess að segja upp störfum hjá fyrirtækinu, sem hann svo gerði daginn eftir. Tveimur dögum síðar fannst hann látinn.
Frá því að Sólon lést hefur fjölskylda hans óskað eftir upplýsingum frá flugfélaginu um ásakanirnar, en Icelandair kveðst ekki hafa heimild fyrir að afhenda þær.
Lögmaður fjölskyldunnar hefur nú skilað inn beiðni til lögreglunnar að hún rannsaki andlát Sólons.