Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði félagið Wokon mathöll ehf. gjaldþrota á miðvikudaginn, en félagið er dótturfélag Wokon ehf., en félögin eru bæði hluti af fyrirtækjasamstæðu sem Quang Le, einnig þekktur sem Davíð Viðarsson, stóð á bak við.
Greint er frá úrskurðinum í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.
Wokon ehf var rekstrarfélag samnefndra veitingastaða sem Quang Le rak og átti einnig allt hluta fé í Wokon mathöll ehf. þegar Wokon ehf. fór í þrot fyrr á þessu ári. Gerðist það eftir aðgerðir lögreglu sem beindust að starfsemi Quang Le.
Sjö veitingastaða Wokon tilheyrðu Wokon ehf, auk tveggja sem tilheyrðu dótturfyrirtækinu Wokon mathöll ehf.
Quang Le keypti staðina sjö af Kristjáni Ólafi Sigríðarsyni í upphafi árs. Fyrir átti Davíð stóran hlut í Wokon mathöll ehf. en eignaðist staðina tvo að fullu eftir viðskiptin.
Quang Le var í ítarlegu viðtali við mbl.is sem birtist í vikunni, en þar gagnrýndi hann skiptin og sakaði einkaaðila um að hafa gert eignir hans upptækar meðan hann sat í varðhaldi, án þess að hann fengi krónu fyrir.
Líkt og mbl.is hefur fjallað um hefur fjöldi tilboða borist í Wokon veitingastaðina, bæði í einstakar staðsetningar og tæki, en ekki í móðurfélagið í heild.
Skiptastjóri Wokon mathallar er Einar Hugi Bjarnason, en hann er einnig skiptastjóri Wokon ehf.