Anton Sveinn til liðs við Miðflokkinn

Anton ávarpaði fundinn í gær.
Anton ávarpaði fundinn í gær. Ljósmynd/Aðsend

Anton Sveinn McKee Ólympíufari var kjörinn formaður Freyfaxa, ungliðahreyfingar Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, á stofnfundi hreyfingarinnar í gær.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Miðflokknum.

Grunnstoðir samfélagsins eru laskaðar

Anton segir það vera heiður að fá að leiða stjórnina. Ný stjórn sé metnaðarfull og kalli eftir breytingum í íslenskum stjórnmálum.

„Það er heiður að fá að leiða þennan framsækna og metnaðarfulla hóp. Við erum samansafn af ungu fólki úr Kraganum sem kallar á breytingar í íslenskum stjórnmálum. Aðstæður í samfélaginu eru mörgu ungu fólki erfiðar og nú ríður á að auka ungu fólki bjartsýni á framtíðina.

Grunnstoðir samfélagsins eru laskaðar og við sættum okkur ekki við það ástand. Það er kominn tími á skynsemishyggju í efnahags-, húsnæðis-, og menntamálum. Miðflokkurinn mun leiða á grundvelli þeirrar stefnu,“ er haft eftir Antoni Sveini í tilkynningunni.

Ásamt Antoni skipa stjórnina Einar Jóhannes Guðnason viðskiptastjóri, Eden Ósk Eyjólfsdóttir, nemi í nýsköpun og frumkvöðlabraut FSN, Valgerður Helgadóttir, starfsmaður hjá Landspítalanum og nemi í FSN og Viktor Leví Andrason leikari.

Ný stjórn.
Ný stjórn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert