„Hauststillur eru orð yfir staðviðrasamt veður að hausti. Það tengist oftast háum loftþrýstingi og engin stærri veðrakerfi að gera atlögu að landinu. Oft er léttskýjað á stórum hluta landsins en fremur kalt, einkum að næturlagi og þá þar sem létt er yfir.“
Svona hefjast hugleiðingar veðurfræðings Veðurstofu Íslands í morgunsárið.
Þar segir að slíkt veðurlag sé einmitt þessa dagana yfir landinu. Einna helst sé það suðvesturhornið sem fái skýjað veður lengst af og eitthvað gæti rignt, „en þannig veður heldur líka frá næturfrostinu svo alslæmt er það nú ekki,“ segir í hugleiðingunum.
Spár gera ekki ráð fyrir breytingum fyrr en seint á þriðjudaginn en þá má búast við kólnandi veðri með ofankomu og hita um frostmark fyrir norðan og austan.
Syðra verði bjart og „þokkalegar“ hitatölur að deginum, að sögn veðurfræðings.