Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um afnám stimpilgjalda af fasteignakaupum einstaklinga og tekur það bæði til kaupa á íbúðarhúsnæði sem og kaupa á lögbýlum.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Vilhjálmur Árnason og segir hann að með aukinni stafrænni þróun séu stimpilgjöld að verða úrelt.
„Stimpilgjald var lagt á til bráðabirgða þegar það var lögfest á sínum tíma og skilgreint sem einhvers konar umsýslukostnaður, en umsýslan við þetta er engin lengur,“ segir Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að afnám stimpilgjaldsins verði öllum hagfellt, sérstaklega ungu fólki sem er að stækka við sig en ekki síður þeim sem eldri eru og vilja minnka við sig húsnæði, sem barnafólk þurfi á að halda vegna stækkandi fjölskyldu.
Stimpilgjald nemur nú 0,8% af kaupverði fasteigna með þeirri undantekningu að helmingsafsláttur er gefinn fyrstu kaupendum.
Umfjöllunina má finna í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.