Norðurljósaveisla næstu fimm árin

Bestu norðurljósaárin ættu að vera 2026, 2027, 2028 og 2029.
Bestu norðurljósaárin ættu að vera 2026, 2027, 2028 og 2029. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Misskilnings virðist gæta meðal íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja um að norðurljósavirkni nái ákveðnu hámarki þennan veturinn. Hið rétta er að næstu 4-5 ár gætu orðið mun líflegri en veturinn sem nú fer í hönd.

Þetta segir Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar.

Þessi staðhæfing kom meðal annars fram í máli viðmælanda í frétt Morgunblaðsins í vikunni og segir Sævar að misskilningurinn sé skiljanlegur enda sé slíkar staðhæfingar víða að finna á netinu. „Fólk sem vinnur í þessum bransa fær ekki alltaf upplýsingar frá mjög traustum upplýsingaveitum,“ segir Sævar sem segir það vera gleðiefni að lífleg ár séu fram undan.

Erlendir ferðamenn sækjast margir eftir því að sjá hin rómuðu …
Erlendir ferðamenn sækjast margir eftir því að sjá hin rómuðu norðurljós í ferð sinni til Íslands. mbl.is/Stella Andrea

„Nú erum við á tímabili í virkni sólar sem heitir hámark á sólsveiflunni. Því er spáð að sú sveifla nái hámarki um þetta leyti ársins, í september eða október, en við vitum það ekki fyrr en eftir að hámarkið er liðið hjá. Því hefur verið haldið fram víða á internetinu að það sé besta árið til að sjá norðurljós af því að þá séu þau tíðust. Við vitum hins vegar út frá mælingum og athugunum sem gerðar hafa verið áratugum saman um allan heim að norðurljósin eru mun tíðari fljótlega eftir sólblettahámarkið en meðan á því stendur,“ segir Sævar.

„Þá koma alveg tvö, þrjú, fjögur ár í röð þar sem þau eru mun algengari og þessir klassísku norðurljósastormar eru enn algengari en núna. Þetta kemur mörgum á óvart en það kemur kannski ekki á óvart að fólk haldi öðru fram á netinu því það þekkir kannski ekki þessar mælingar.“ Af reynslunni að dæma ættu bestu norðurljósaárin því að vera 2026, 2027, 2028 og 2029, að sögn Sævars.

Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert