Gekk nakinn eftir Suðurlandsvegi

Annar maður og hundur var með í för.
Annar maður og hundur var með í för. Ljósmynd/Aðsend

Maður olli usla á Suðurlandsvegi fyrr í dag þegar hann gekk kviknakinn eftir miðjum veginum nálægt afleggjaranum inn í Heiðmörk.

mbl.is hefur borist nokkur myndskeið og myndir af atburðinum en þar sést maðurinn ganga allsber eftir miðjum veginum. Eftir honum gengur annar maður, klæddur í buxur en ber að ofan og berfættur, en sá virðist halda á hundi.

Önnur myndskeið sýna frá því þegar lögregla var mætt á staðinn og tveir lögreglumenn leiddu nakta manninn inn í lögreglubíl.

Syntu í Hólmsá

„Rétt fyrir eitt fær lögreglan tilkynningu um tvo menn, sem voru taldir naktir, að synda í Hólmsánni sem liggur undir Suðurlandsveg,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri í samtali við mbl.is.

Skömmu síðar barst svo önnur tilkynning en þá voru mennirnir komnir upp á veginn og inn í umferðina.

„Þegar lögreglumenn koma á staðinn er hægt að tjónka við annan og honum var skipað að koma sér [í hús sem þau dvöldu í þarna nálægt]. Hinn var í öllu verra ástandi og var færður á bráðamóttökuna til að láta athuga heilsu hans, bæði líkamlega og andlega,“ segir Ásgeir.

Þá segir hann að ekkert tjón virðist hafa orðið vegna uppákomunnar.

„Við erum ekki með upplýsingar um það að þessi uppákoma í umferðinni hafi orðið til þess að það hafi orðið neinar skemmdir eða árekstur þannig að það er held ég ekki neitt annað en að fólki hafi eðlilega brugðið að mæta þessum einstaklingum á miðjum veginum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert