Kemur á óvart að fimm séu eftir

Hlauparar voru að í alla nótt.
Hlauparar voru að í alla nótt. mbl.is/Ólafur Árdal

Fimm hlauparar hlaupa nú sinn 28. hring í bakgarðshlaupi Náttúruhlaupa en þegar hafa þeir lokið við 180,9 kílómetra frá því að hlaupið hófst í gærmorgun.

Bakgarðshlaupið virkar þannig að á hverjum klukkutíma hlaupa keppendur 6,7 kílómetra hring. Hver hringur er ræstur út á heila tímanum og ef keppandi er kominn í mark áður en að næsti hringur byrjar má hann nota restina af tímanum til þess að hvílast og undirbúa sig fyrir næsta hring.

230 keppendur hófu keppni en eins og áður segir standa aðeins fimm eftir. Það eru þau Marlena Radziszewska, Adam Komorowski, Tómas Jacobsen, Þórdís Ólöf Jónsdóttir og Sölvi Snær Egilsson.

Aðstæður góðar

Elísabet Margeirsdóttir hjá Náttúruhlaupum segir að stemmningin í nótt og í morgun hafi verið með besta móti.

„Það eru ótrúlega góðar aðstæður og margt fólk að hvetja hlauparana, alveg eitthvað fram í nóttina, og nú er alveg frábært veður og þau [hlaupararnir] líta alveg frekar vel út þessi fimm sem eru eftir.“

Spurð hvernig keppnin á þessum tímapunkti blasi við henni samanborið við fyrri ár segir Elísabet:

„Það kemur alveg á óvart að þau séu enn þá fimm eftir þannig þetta er alveg mjög sterk keppni ef við horfum á einhver meðaltöl. Svo kemur í ljós hvort einhverjir tveir fari enn þá lengra.“

„Svo er þetta bara einn hringur í einu“

Elísabet segist ekki endilega eiga von á að einhverjir tveir fari 50 hringi eins og í síðasta bakgarðshlaupi þegar Mari Järsk setti Íslandsmet þegar hún hljóp 381 kíló­metra.

„En þau fimm gætu alveg farið ótrúlega langt miðað við aðrar keppnir,“ segir Elísabet.

Spurð hvort hún hafi heyrt af einhverjum markmiðum meðal þeirra sem enn eru að segist Elísabet halda að þau stefni öll fimm á að minnsta kosti 30 hringi sem eru 200 kílómetrar.

„Svo er þetta bara einn hringur í einu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert