Samstarf við heimafólk mikilvægt í þjóðgarði

Skagfjörðsskáli í Húsadal.
Skagfjörðsskáli í Húsadal. Ljósmynd/Aðsend

„Margt af því sem gert hefur verið í Þórsmörk í tímans rás býr í haginn fyrir að svæðið verði þjóðgarður,“ segir Gísli Gíslason landslagsarkitekt.

„Þarna er um margt ágæt aðstaða til að taka á móti ferðafólki og vandaðir göngustígar til verndar viðkvæmri náttúru í öskublendnum jarðvegi tryggja aðgengi. Samt má ekki ganga of langt í framkvæmdum. Mér finnst ekki koma til greina að brúa jökulárnar þannig að fólksbílafært verði í Mörkina.“

Starfshópur sem umhverfisráðherra skipaði á dögunum kannar nú ágæti þess að Þórsmörk og nærliggjandi svæði verði gerð að þjóðgarði. Frumkvæðið í þessu máli kemur frá heimafólki, sem í þessu sér tækifæri til eflingar samfélags í Rangárþingi eystra. Tillögur starfshópsins um hvort stofna eigi þjóðgarð eiga að liggja fyrir um miðjan nóvember næstkomandi. Að því fengnu verður hægt að halda áfram með málið.

Hófleg stærð en stækka má þjóðgarðinn síðar

Gísli Gíslason hefur í áratugi unnið að skipulagsmálum á hálendinu og þekkir því vel til aðstæðna í Þórsmörk. Þá var hann fyrir margt löngu framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs. Ráðinu tengd voru haldin fundir og þing þar sem gjarnan komu fram sjónarmið og hugmyndir um vernd og nýtingu lands sem orðið hafa að veruleika áratugum síðar.

„Á náttúruverndarþingi fyrir sjálfsagt um 40 árum man ég eftir því að ályktað var um að stofna skyldi Þórsmerkurþjóðgarð,“ segir Gísli.

„Þetta var góð hugmynd og er enn. Ég tel affarasælast að fremur en að taka stór svæði undir sé betra að stofna þjóðgarða sem ná yfir afmörkuð svæði af hóflegri stærð. Slíkt er útfærsla sem hentar vel fyrir Þórsmörk. Í fyllingu tímans mætti svo stíga stærri skref og stækka þjóðgarðinn yfir allt Fjallabakssvæðið. Taka þá með Eyjafjallajökul, Tindfjöll, Torfajökulsvæðið og jafnvel Heklu. Þjóðgarðurinn myndi þannig ná yfir núverandi Friðland að Fjallabaki með öllum sínum töfrum. Þjóðgarður sem næði yfir nokkrar megineldstöðvar á eystra gosbeltinu gæti verið einstakur á heimsvísu.“

Þjóðgarður verður aldrei stofnaður nema með þéttu og góðu samstarfi við heimafólk þannig að sjónarmið þess séu ráðandi í framvindu mála, að mati Gísla. Frumkvæði heimamanna er því mjög mikilvægt.

Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert