Vextir og verðbólga leika sveitarfélög grátt

Hefur rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna verið neikvæð allt frá árinu 2020.
Hefur rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna verið neikvæð allt frá árinu 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðvarandi háir vextir og verðbólga hafa komið illa við rekstur sveitarfélaga landsins undangengin ár.

Hefur rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna verið neikvæð allt frá árinu 2020. Til marks um það er að fjármagnsgjöld sveitarfélaga landsins hafa verið á milli 21 og 23 milljarðar króna á ári undangengin tvö ár sem endurspeglar erfitt rekstrarumhverfi.

Þetta kemur fram í nýlegri samantekt þróunarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga á fjárhagslegri stöðu sveitarfélaga landsins, sem kynnt var með minnisblaði á stjórnarfundi sambandsins á dögunum.

Byggt er á ársreikningum sveitarfélaga fyrir seinasta ár í greiningunni, þar sem fram kemur að rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarfélaga var neikvæð um milljarð kr. í fyrra eftir 21 milljarðs kr. tap á árinu á undan, sem stafar einkum af háum fjármagnsgjöldum.

Umsvifin hafa vaxið töluvert

Afkoma A-hluta sveitarfélaga batnaði þó á síðasta ári frá árinu á undan. Sé litið á rekstrarniðurstöðuna fyrir fjármagnsliði kemur í ljós að hún batnaði um 18,5 milljarða milli ára.

Ljóst er að umsvif sveitarfélaganna hafa vaxið töluvert á undanförnum árum. Tekjur A-hluta sveitarfélaganna jukust í fyrra um 14% á milli ára en á sama tíma jókst rekstrarkostnaðurinn um 10%. Þá hefur veltufé frá rekstri aukist í hlutfalli við tekjur úr 3,5 í 7,9% milli ára, sem er til marks um jákvæðari þróun.

„Uppsöfnuð fjárfestingaþörf sveitarfélaganna er töluverð og ekki er ósennilegt að rekstrarafkoma sveitarfélaga verði áfram neikvæð ef staðið verður við fjárfestingaráform sveitarfélaganna og ekki síður ef hægt gengur að ná verðbólgu hér á landi niður á næstu misserum,“ segir í samantektinni.

Skuldahlutfallið lækkaði

Bæði nýjar fjárfestingar sveitarfélaganna og ný langtímalán sem tekin voru í fyrra jukust um rúmlega 20% á milli ára en skuldahlutfallið hefur þó lækkað lítið eitt.

„Hlutfall afborgana af nýjum lánveitingum eykst á milli ára og það, ásamt tekjuaukningu sveitarfélaga, veldur því að skuldahlutfall sveitarfélaga lækkar úr 115% árið 2022 niður í 113% árið 2023,“ segir á minnisblaðinu.

Bent er á að sveitarfélög landsins hafa að einhverju leyti mætt efnahagsástandi liðinna ára með aukinni lántöku. Skuldir þeirra og skuldbindingar aukast milli ára en á sama tíma hafa tekjur þeirra vaxið og því hefur skuldahlutfallið verið nokkuð stöðugt og lækkaði lítillega í fyrra eins og fyrr segir.

Graf/mbl.is

Launahækkanir hlutfallslega minni en vöxtur tekna

Launagreiðslur eru stærsti útgjaldaliðurinn en í kjarasamningum sem gerðir hafa verið að undanförnu hefur verið samið um hófstilltar launahækkanir og samkomulag náðst um þak á gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga.

Bent er á það í samaantektinni að þrátt fyrir að ýmsir hafi gagnrýnt launahækkanir undangenginna ára þá séu þær engu að síður hlutfallslega lægri en vöxtur tekna A-hluta sveitarfélaga á sama tíma.

Skólamálin, félagsþjónusta og sorphreinsun og sorpeyðing eru stærstu útgjaldaliðir sveitarfélaga, sem hafa hækkað umtalsvert.

„Helstu hækkanir á útgjöldum eru í fræðslu- og uppeldismálum, rúmir 18,3 milljarðar króna á milli síðustu tveggja ára. Er hækkunin þar mest meðal grunnskóla en leikskólar og dagvistun fylgir þar á eftir. Þess má þó geta að hlutdeild þeirra stækkar ekki í heildarútgjöldum málaflokksins,“ segir í samantektinni.

19% hækkun vegna sorps

Félagsþjónustan kemur þar næst á eftir en hækkun útgjalda vegna hennar á milli síðustu tveggja ára nemur níu milljörðum króna. 66% þeirrar hækkunar má rekja til þjónustu við fatlað fólk en fram kemur að kostnaður vegna hennar braut í fyrsta sinn 50 milljarða múrinn við uppgjör síðasta árs.

Þessir tveir málaflokkar ná yfir 70% allra útgjalda sveitarfélaga á seinasta ári.

Yfirlit yfir útgjöld sveitarfélaga vegna hreinlætismála, þ. á m. sorphirðunnar, sýnir umtalsverða hækkun á seinustu árum (sjá meðfylgjandi töflu).

„Með nýjum hringrásarlögum og innleiðingu „Borgað þegar hent er“-kerfisins er áhugavert að líta til hreinlætismála. Þó nokkur hækkun er á liðnum sorphreinsun og sorpeyðing eða rétt tæp 19% frá árinu 2022 til 2023,“ segir á minnisblaði sambandsins.

Umfjöllunin birtist í Morgunblaðinu á fimmtudaginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert