Bjarkey liggur undir feldi: Styttist í ákvörðun

Bjarkey íhugar nú formannsframboð. Svandís hefur ekki tilkynnt um framboð …
Bjarkey íhugar nú formannsframboð. Svandís hefur ekki tilkynnt um framboð en starfandi formaður VG hefur lýst yfir stuðningi við hana. Eggert Jóhannesson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi og matvælaráðherra, útilokar ekki að bjóða sig fram til formanns VG.

Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is.

Enginn hefur tilkynnt um formannsframboð en landsfundur flokksins hefst í næstu viku. 

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, fé­lags­mála- og vinnu­markaðsráðherra og starfandi formaður VG, greindi frá því fyrr í dag að hann myndi ekki gefa kost á sér til for­manns en hann hyggst aftur á móti bjóða sig fram til varaformanns. Jódís Skúladóttir, þingmaður VG, hyggst einnig gefa kost á sér í varaformannsembættið.

Greinir frá ákvörðun í vikunni

Guðmundur lýsti jafnframt yfir stuðningi við Svandísi Svavars­dótt­ur innviðaráðherra í formann, en hún hefur ekki tilkynnt um framboð. 

„Ég er eins og aðrir búin að vera undir mínum feldi og ég er ekki búin að taka neina ákvörðun enn þá. En útiloka alls ekki neitt,“ segir Bjarkey.

Hún gerir ráð fyrir því að hún muni greina frá ákvörðun sinni um miðja viku. Lands­fund­ur Vinstri grænna verður hald­inn 4.-6. októ­ber.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert