Dráttarvélargálgi féll á ökkla manns í Hafnarfirði fyrr í dag og flytja þurfti manninn á bráðamóttöku til aðhlynningar.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta var ekki eina vinnuslysið sem var tilkynnt því að í Mosfellsbæ datt maður úr stiga á steypt gólf. Hann kvartaði yfir verkjum í mjöðm en ekki er vitað hvort að hann hafi leitað sér aðstoðar á bráðamóttöku.
Í Kópavogi var tilkynnt um þjófnað í tveimur verslunum en málin voru afgreidd á vettvangi. Þá var tilkynnt um innbrot og þjófnað í verslun í Reykjavík og er málið til rannsóknar. Þar að auki var tilkynnt um innbrot í geymslur og þjófnað úr þeim í Garðabæ en gerandi er ókunnugur.
Í Breiðholti var tilkynnt um minni háttar skemmdarverk þar sem rúða var brotin og er málið komið í ferli hjá lögreglunni. Þá var einnig tilkynnt um fjársvik en einstaklingur neitaði að borga fyrir far með leigubíl.
Einn var handtekinn fyrir akstur undir áhrifum í Reykjavík og þá varð umferðaróhapp í Hafnarfirði en engin slys urðu á fólki.