Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, hyggst ekki gefa kost á sér til formanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Hann kveðst aftur á móti styðja Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra til að leiða hreyfinguna að loknum landsfundi. Þá ætlar hann að gefa kost á sér í embætti varaformanns flokksins og oddvita hreyfingarinnar í kraganum.
Frá þessu greinir hann í færslu á Facebook.
Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna hefur gefið kost á sér í embætti varaformanns. Hún greindi einnig frá því í færslu á Facebook.
Landsfundur flokksins verður haldinn í byrjun næsta mánaðar.
Guðmundur Ingi tók við sem formaður Vinstri grænna eftir að Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður VG, sagði af sér embætti og fór í forsetaframboð.
„Ég er stoltur af mörgu sem VG hefur áorkað undir minni forystu, sérstaklega fjölmörgum mikilvægum þingmálum sem við kláruðum í vor, eins og breytingum á örorkulífeyriskerfinu, mannréttindastofnun og fjölmörgum kjarasamningstengdum málum sem munu auka jöfnuð og réttlæti í samfélaginu. Það hefur verið sérstaklega gefandi að vinna með félögum í VG í þessu hlutverki á vettvangi stjórnar, þingflokks, flokksráðs, svæðisfélaga og í samtölum við fólk vítt og breitt um landið. Allt fer þetta í reynslubrunninn og þakklætishólfið í hjartanu,“ skrifar Guðmundur Ingi á Facebook.
„Ég er ekki að hætta í stjórnmálum, langt því frá. Ég mun áfram bjóða fram krafta mína sem varaformaður hreyfingarinnar og oddviti VG í Kraganum. Ég brenn fyrir umhverfismálum, mannréttindum og félagslegum áherslum og vil áfram vinna þeim baráttumálum brautargengi í íslensku samfélagi.“
Fréttin hefur verið uppfærð.