Brotist var inn í verslanir Elko í Skeifunni og Lindum í nótt.
Þetta staðfestir Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Elko, í samtali við mbl.is.
Óttar kveðst lítið geta tjáð sig um málið sökum þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sé enn að rannsaka málið. Hann staðfestir þó að helst hafi það verið farsímar sem hafi verið teknir ránshendi.
Starfsfólk Elko vinnur nú að því að skrásetja hvaða eintök vantar og mun í kjölfarið fara í það ferli með birgjum að gera símana óvirka.
Heimildir mbl.is herma að búast megi við skorti á ákveðnum tegundum farsíma, þ.e. Samsung og Apple-símum.
Spurður hvort atvikin hafi uppgötvast strax um nóttina og hvort þau hafi náðst á öryggismyndbandsupptökur kveðst Óttar ekki geta tjáð sig um það að svo stöddu.