Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu á höfuðborgarsvæðinu, segir að rannsókn á hnífstunguárásinni á Menningarnótt miði vel áfram.
16 ára piltur er grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni með hnífi þar sem þau sátu í bíl við Skúlagötu. Bryndís Klara Birgisdóttir lést af sárum sínum nokkrum dögum eftir árásina en piltur og stúlka sem voru með áverka eftir árásina voru útskrifuð af sjúkrahúsi.
Grímur segir að rannsóknin muni klárast innan þess frests sem lögreglan hefur en að jafnaði er hann tólf vikur áður en ákvörðun er tekin um ákæru.
„Við teljum okkur vera komin með nokkuð góða mynd af því sem gerðist en rannsókninni er ekki lokið,“ segir Grímur.
Hinn grunaði er í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði en hann var fluttur þangað frá Stuðlum, sem er bráðaúrræði fyrir börn og unglinga, til að tryggja öryggi hans eftir að honum bárust líflátshótanir. Gæsluvarðhaldið rennur út á fimmtudaginn.