Lenya Rún nýr formaður Ungra Pírata

Ný stjórn Ungra Pírata.
Ný stjórn Ungra Pírata. Ljósmynd/Aðsend

Varaþingmaðurinn Lenya Rún Taha Karim hefur verið kjörin nýr formaður Ungra Pírata.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að ný stjórn félagsins hafi verið kjörin á aðalfundi Ungra Pírata á laugardaginn.

Auk Lenyu sitja í stjórninni Davíð Sól, leikskólakennari, Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp, Gamithra Marga forritari og Árni Pétur Árnason sagnfræðingur.

Tryggja að stefnur taki mið af raunveruleika ungs fólks

Haft er eftir Lenyu Rún að stór vetur sé fram undan, hvort sem kosningar verði að vori eða hausti til, og að afskaplega mikilvægt sé að stefnumál og kosningastefnur allra flokka taki raunverulega mið af hagsmunum ungs fólks.

„Ungir Píratar munu tryggja að stefnur Pírata taki líka mið af raunveruleika ungs fólks, t.d. hvað varðar húsnæðismarkaðinn, loftslagsbreytingar, námslánakerfi, atvinnuöryggi o.fl. en á sama tíma viljum við einnig skapa vettvang þar sem við tökum vel á móti nýju fólki sem vill taka sín fyrstu skref í stjórnmálum,“ er haft eftir nýja formanninum.

Aðalfundurinn var haldinn í Bragganum í Nauthólsvík samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Kópavogi og Suðvesturkjördæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert