Lögreglan fer yfir myndefnið

Frá rannsókn lögreglu á vettvangi 15. september.
Frá rannsókn lögreglu á vettvangi 15. september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, segir að lögreglunni hafi borist talsvert af myndefni frá vegfarendum sem óku um Krýsuvíkurveg 15. september milli klukkan 13 og 18 sama daginn og tíu ára stúlka fannst þar látin.

Faðir stúlkunnar er grunaður um að hafa banað henni og rennur gæsluvarðhaldsúrskurður yfir manninum út á morgun. Fyrir þann tíma þarf lögregla að taka ákvörðun hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald. Hann er sá eini sem er með stöðu sakbornings að sögn Gríms en hann segir að engar yfirheyrslur hafi farið fram yfir manninum síðan á miðvikudaginn.

„Okkur hefur borist töluvert af myndefni sem við höfum verið að fara í gegnum. Við eigum eftir að sjá hvort það hvort það verði beint gagn af þessu efni eða ekki,“ segir Grímur við mbl.is.

Hann segir að lögreglunni hafi borist flest myndefnið eftir að hún auglýsti eftir því og það sé gjarnan þannig í svona málum.

Grímur segir að farið hafi fram bráðabirgðageðmat á föður stúlkunnar en það séu stöðluð vinnubrögð í slíkum málum. Hann segist ekki hafa farið yfir hver niðurstaðan hafi verið. RÚV greindi frá því fyrir helgi að maðurinn hefði verið metinn sakhæfur.

Sakhæfi metið af dómara

Grímur segir að sakhæfi sé metið af dómara og það sé meira lögfræðilegt álitaefni heldur en læknisfræðilegt þótt það sé byggt að læknisfræðilegri skoðun að einhverju leyti.

Að sögn Gríms er rannsóknarvinnan í fullum gangi og einn liður í henni sé að fá það staðfest hvort maðurinn hafi verið undir áhrifum eða ekki. Það liggi ekki fyrir niðurstaða hvað það varðar.

„Rannsóknin er komin í þann farveg að það eru engar daglegar breytingar á henni,“ segir Grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert