„Sígilt frjálslyndið“ höfðaði til Antons

Anton Sveinn McKee Ólympíufari og formaður Freyfaxa, ungliðahreyfingar Miðflokksins í …
Anton Sveinn McKee Ólympíufari og formaður Freyfaxa, ungliðahreyfingar Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Aðsend

Anton Sveinn McKee ólympíufari segir að skynsemishyggja og sígilt frjálslyndi hafi dregið hann að Miðflokknum. Spurður hvort hann stefni á þing segist hann vera alinn upp við að klára verkefni til enda.

Anton Sveinn var fyrir helgi kjörinn formaður Freyfaxa, ungliðahreyfingar Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, á stofnfundi hreyfingarinnar.

Anton hafði áður tekið þátt í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins. Spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að ganga til liðs við Miðflokkinn segir Anton að stefna flokksins hafi þar ráðið för.

Fullt af flottu fólki í Sjálfstæðisflokknum

„Ég ákvað að ganga til liðs við Miðflokkinn af því að stefna hans, þá sérstaklega skynsemishyggjan og sígilt frjálslyndið, höfðaði betur til mín.

Eins og ég skil skynsemishyggju þá er hún hugmyndafræði sem leggur áherslu á að ákvarðanir séu teknar á grundvelli staðreynda. Í stað þess að láta tilfinningar eða popúlískar skoðanir stýra för þá byggir skynsemishyggja á því að ákvarðanir séu teknar með langtímahugsun og staðreyndir til hliðsjónar,“ segir Anton.

Þá segir hann að það hafi ekki verið fólkið í Sjálfstæðisflokknum sem varð til þess að hann hafi snúið baki við flokknum.

„Þegar ég byrjaði að kynna mér pólitíkina á Íslandi þá skoðaði ég Sjálfstæðisflokkinn fyrst. Í Sjálfstæðisflokknum kynntist ég fullt af flottu fólki og hafði ákvörðunin ekkert með fólkið í flokknum að gera. Þegar ég fór að skoða stefnuna dýpra þá fann ég mig betur hjá Miðflokknum.“

Klárar verkefni til enda

Spurður hvert markmið Freyfaxa sé segir Anton að stjórn hreyfingarinnar ætli að leggja áherslu á að ræða málefni Miðflokksins sem snúa að framtíð landsins, þá sérstaklega húsnæðis-, efnahags- og menntamálin.

„Markmiðið okkar hjá Freyfaxa er að safna saman ungu fólki sem vill að teknar séu skynsamar ákvarðanir um framtíð landsins. Við viljum virkja þau og skapa vettvang fyrir þau að blómstra og taka virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni,“ segir Anton.

Spurður hvort hann stefni á þing í næstu kosningum segir Anton:

„Ég var alinn upp við það að þegar maður tekur sér verkefni fyrir hendur þá klárar maður það til enda. Ég trúi því að ég hafi margt gott fram að færa en öll orkan mín mun núna fara í að byggja upp kröftuga og öfluga ungliðahreyfingu fyrir Miðflokkinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert