Karlmaður um þrítugt hlaut í síðustu viku sex ára dóm fyrir umfangsmikinn innflutning á amfetamíni í byrjun þessa árs. Auk hans voru tveir aðrir karlmenn og ein kona dæmd í 2-3 ára fangelsi fyrir sinn þátt í málinu.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er rakið hvernig tvær sendingar hafi komið til landsins í febrúar frá Þýskalandi. Var önnur þeirra með 9 áfengisflöskum sem innihéldu 3.310 ml af amfetamínbasa, en í hinni sendingunni voru 3.470 ml af amfetamínbasa í 16 snyrtivöruflöskum.
Um nokkuð hreint efni var að ræða og er talið að hægt hefði verið að framleiða um 32,5 kg af amfetamíni til sölu úr því.
Aðalmaðurinn í innflutningnum var Michal Szematowicz, en hann hlaut þyngsta dóminn. Var hann fundinn sekur um að skipuleggja innflutninginn og að hafa fengið þau Sólveigu Júlíu Linnet, Sigfús Má Dagbjartsson og Wojciech Kaczorowski til að sækja pakkana á póstafgreiðslu.
Þá kemur í dóminum einnig fram að Michal hafi verið umfangsmikill í sölu á oxy-lyfjum, en ekki er þó ákært fyrir það í málinu.
Fengu þau Sigfús og Sólveig þriggja ára dóm fyrir sinn þátt í innflutningnum. Höfðu þau veitt Michal heimild til að skrá heimilisfang sitt fyrir sendingunum, auk þess sem þau fóru og sóttu pakkana á póstafgreiðslustað. Wojciech, sem hafði lengi verið vinur Michal, sótti hins vegar Sólveigu og keyrði hana á póstafgreiðslustaðinn og ætlaði að koma efnunum áfram til Michal.
Lögreglan komst á snoður um efnin í sendingunni og skipti þeim út fyrir gerviefni og fylgdist svo með þegar sendingarnar voru sóttar og hvert farið var með þær.
Michal fór sjálfur með Sigfús í póstafgreiðsluna til að sækja aðra sendinguna, en sem fyrr segir fór Wojciech með Sólveigu til að sækja seinni sendinguna sama dag. Var Wojciech handtekinn eftir að hafa hleypt Sólveigu úr bílnum og sömuleiðis Michal þegar hann hafði keyrt Sigfús annað og hleypt honum út.
Í bíl Michal fannst einnig sími þar sem finnam átti samskipti við fjölda aðila sem bentu til mikillar sölu á oxy-lyfjum.
Þá er í dóminum farið yfir að Michal fékk yfir eins árs tímabil samtals 1.389 innborganir frá 220 einstaklingum upp á samtals 21,3 milljónir. Þá millifærir hann á annan aðila nokkrar milljónir, en sá aðili er erlendis og ekki tókst að hafa upp á honum.
Er þar líklega um að ræða aðila sem í samskiptum Michal er kallaður „Plaski“. Michal sagði þó fyrir dómi að þetta væri ekki sami maðurinn og að hann þekkti ekki Plaski neitt af viti. Hins vegar er tekið fram í dóminum að Michal hafi verið með símanúmer Plaski í síma sínum, verið reglulega í samskiptum við hann, meðal annars daginn þegar efnin voru sótt og verið með mynd af honum við símanúmerið og að sú mynd væri mjög lík þeim aðila sem hann hafði millifært á.
Michal gaf hins vegar þá skýringu á málinu að Plaski væri maður sem hann hefði lítillega kynnst á kránni Catalinu í Hamraborg og Plaski hefði beðið sig um að sækja pakkana tvo, en þó þannig að ekki væri sami aðili sem myndi sækja þá. Sagðist hann annars lítið þekkja Sólveigu og Sigfús.
Bæði Sólveig og Sigfús sögðu Michal vera oxy-salann sinn og að þau hefðu áður sótt pakka fyrir hann. Þá hefðu þau fengið greitt fyrir að leyfa honum að nota heimilisfangið sitt og að sækja pakkana. Meðal annars hafi greiðslan verið í formi oxy-lyfja.
Í dómi héraðsdóms segir að það þyki mega slá því föstu að hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa að Michal sé eigandi símans sem fannst í bifreiðinni og að hann hafi nýtt símann við skipulagningu sendingarinnar. Þá hafi hann einnig haft á leigu húsnæði það sem svipaðar flöskur fundust og efnin voru flutt inn í. Þá bendi áhöld í húsnæðinu til þess að þar hafi fíkniefni hafi verið unnin.
Jafnframt er á það bent að þegar lögregla ætlaði að handtaka Michal hafi hann reynt að komast undan og keyrt á ómerkta lögreglubifreið. Segir í dóminum að það sé ekki í samræmi við háttsemi saklauss manns.
Í dóminum er sérstaklega áréttað að um talsvert magn amfetamínbasa sé að ræða og hægt hafi verið að framleiða umtalsvert magn af amfetamíni.
Sólveig og Sigfús hafi átt að vita að þau væru að sækja fíkniefnasendingu, meðal annars þar sem þau hafi áður keypt mikið magn fíkniefna frá Michal. Þá hafi Wojciech einnig átt að vita að sendingin innihélt fíkniefni, en bent er á að hann hafi sjálfur auglýst fíkniefni á Telegram reikningi sínum og verið náinn vinur Michal og verið búsettur í eign á hans vegum um tíma.
Öll neituðu sök fyrir dómi og sagði Michal meðal annars að fjármunirnir sem hefðu komið inn á reikning til sín væru vegna upptökutíma og að það væru greiðslur fyrir akstur.
Dómurinn tók slíkar skýringar hins vegar ekki í mál felldi yfir þeim þunga dóma.
Sem fyrr segir fékk Michal þyngsta dóminn, eða 6 ár. Sólveig og Sigfús fengu þrjú ár fyrir sinn þátt og Wojciech tvö ár. Ekkert þeirra var með fyrri dóma á bakinu sem skiptu máli í þessu tilviki, utan Wojciech, en hann hlaut hálfs árs dóm í upphafi árs fyrir líkamsárás.