Lögreglan á Íslandi hefur á umliðnum árum þurft að hafa afskipti af ungum mönnum úr sænskum glæpagengjum sem koma hingað til lands.
Yfirleitt hafa lögreglumenn afskipti af þeim þegar þeir eru þegar komnir inn í landið, og hafa jafnvel þegar framið brot. Lögreglan vill því herða landamæraeftirlit, m.a. með því að nota andlitsgreiningu á Keflavíkurflugvelli.
Yfirvöld á Norðurlöndum telja að stærri glæpagengi frá Svíþjóð hafi að undanförnu fært út kvíarnar til annarra norrænna ríkja – og Ísland virðist nú ekki undanskilið þeirri þróun.
„Vandamál Dana hvað þessi gengi varðar eru hins vegar grafalvarleg,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, við Morgunblaðið. Hann nefnir í því samhengi að eftirlit á landamærum Svíþjóðar og Danmerkur hafi aukist upp á síðkastið, en Danir hafa fundið fyrir aukinni gengjastarfsemi undanfarin ár. Þýskaland tók einnig nýlega upp kerfisbundið eftirlit á innri landamærum.
„Hvað innri landamærin á Íslandi varðar þarf það í fyrsta lagi að gerast að öll flugfélög skili inn upplýsingum um flugfarþega,“ segir Úlfar. Það dugi ekki að aðeins liggi fyrir upplýsingar um 93% farþega. Samkvæmt íslenskum lögum ber öllum flugfélögum að afhenda þessar upplýsingar.
Í öðru lagi vill lögreglan að andlitsgreiningartækni verði tekin í notkun á innri landamærum á Keflavíkurflugvelli. „Til þess standa nýlegar breytingar á landamærareglum Schengen-samstarfsins.“
Í þriðja lagi vill hann að yfirvöld á Norðurlöndum deili sín á milli upplýsingum, þ.m.t. ljósmyndum af félögum í glæpaklíkum.
„Þetta er eitthvað sem við höfum verið að sjá í einhvern tíma,“ segir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild lögreglu. Spurð nánar svarar hún: „Ég myndi frekar telja þetta í árum, kannski ekki tugum ára.“
Hafið þið yfirleitt afskipti af þeim þegar þeir eru komnir inn í landið eða eruð þið að snúa þeim við á landamærunum?
„Við erum að hafa afskipti af þeim hér, í tengslum við hugsanlega einhver brot.“
Kröfur lögreglunnar
Öll flugfélög skili yfirvöldum upplýsingum um farþega.
Andlitsgreiningartækni verði tekin í notkun á landamærum á Keflavíkurflugvelli.
Yfirvöld á Norðurlöndum deili ljósmyndum af félögum í glæpagengjum sín á milli.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.