Bruninn sem kom upp í rútu í Skutulsfirði fyrr í þessum mánuði er enn til rannsóknar að sögn Helga Jenssonar, lögreglustjóra á Vestfjörðum.
„Þetta mál er í rannsókn en við teljum að það liggi fyrir hvað gerðist. Vélin í rútunni virðist hafa brætt úr sér og sprungið og við það kviknaði eldur í rútunni,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.
Eldurinn kom upp í rútunni í Tungudal í Skutulsfirði og varð hún alelda á skömmum tíma. Litlu mátti muna að eldurinn kviknaði í rútunni í Vestfjarðargöngunum þar sem tveir afleggjarar eru einbreiðir.
„Ef þetta hefði gerst inni í göngunum þá hefði skapast mjög hættulegt ástand en þetta slapp sem betur fer vel,“ segir Helgi en um borð í rútunni voru farþegar úr skemmtiferðaskipi sem lá við Ísafjarðarhöfn. Þeir voru að koma úr skoðunarferð á Flateyri, Þingeyri og Dynjanda.