Bjarkey býður sig ekki fram

Bjarkey styður Svandísi til formanns VG.
Bjarkey styður Svandísi til formanns VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir, odd­viti Vinstri grænna í Norðaust­ur­kjör­dæmi og mat­vælaráðherra, hyggst ekki bjóða sig fram til formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Hún greindi frá þessu í samtali við blaðamann mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Í gær sagðist hún liggja undir feldi og útilokaði ekki framboð. Nú er hún skriðin undan feldinum og þetta er niðurstaðan. 

Ekki til í þetta verkefni

Aðspurð hvers vegna hún býður sig ekki fram segir Bjarkey:

„Ég tel kannski að við séum komin með mjög gott formannsefni og ég eins og aðrir velti því fyrir mér, ég hef verið lengi í pólitík, hvort þetta sé það sem ég vil taka að mér, og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það er ekki.“

Segist hún frekar ætla að einbeita sér að þeim verkefnum sem hún hefur verið að sinna innan VG, að vera þingmaður og ráðherra.

Styður Svandísi

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra staðfesti það eftir fundinn að hún hygðist bjóða sig fram til formanns, en Bjarkey segir sína ákvörðun þó ekki hafa staðið og fallið með ákvörðun Svandísar.

„Nei, þetta var meira svona er ég til í þetta eða ekki, af því þessu fylgir auðvitað talsverð viðbótarvinna við það sem maður er að gera dags daglega.“

Hún segist styðja Svandísi til formanns, hún sé góður kostur fyrir flokkinn og sæki fast í gömlu gildi VG. „Ég tel að það sé það sem við þurfum akkúrat núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert