Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra segir það ekki hafa verið auðvelt að taka ákvörðun um hvort hún ætti að bjóða sig fram til formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eða ekki. Hún hafi þurft að hugsa sig um í dágóðan tíma.
„Þetta er ekki einfalt verkefni. Ég þurfti að hugsa eins og allir þurfa að gera þegar þeir eru á tímamótum í lífinu, þá þurfa þeir að velta fyrir sér bæði hinni pólitísku hlið og líka hinni persónulegu hlið,“ segir Svandís spurð út í ákvarðanatökuna.
Haft er eftir Svandís í frétt RÚV að hún vilji flýta alþingiskosningum þannig að kosið verði í vor, en ekki næsta haust líkt og stendur til.
Hún tekur fram að hún hafi mikla reynslu og hafi unnið með öllum formönnum VG.
„Ég hef góða tilfinningu fyrir því hvaðan VG kemur en um leið er ég manneskja og velti fyrir mér forgangsröðun og áherslum í mínu lífi. Þarna undir feldinum þá fann ég að eldurinn var þarna ennþá og brennandi áhugi á að lyfta flaggi VG hærra. Það samræmist mjög vel mínum gildum.“
Telur Svandís að það megi skerpa þá sterku rödd sem VG kom inn á sjónarsviðið til að vera. „Ég vonast til þess að með félögum mínum geti ég gert þá rödd ennþá sterkari.“
Í síðasta hlaðvarpsþætti Bakherbergisins, þar sem fjölmiðlamaðurinn Þórhallur Gunnarsson og almannatengillinn Andrés Jónsson ræða um pólitík, kom meðal annars fram að líkur væru á að tillaga um að slíta ætti strax stjórnarsamstarfinu yrði lögð fram á landsfundinum. Væri það á vegum grasrótarinnar og að nokkur stuðningur væri við slíka tillögu.
Spurð út í slíkar sögusagnir segist Svandís ekki hafa yfirsýn yfir þær ályktanir sem borist hafa í aðdraganda fundarins. Hún gerir hins vegar ráð fyrir því að ríkisstjórnarsamstarfið verði rætt á fundinum.
„Ég held að það væri mjög skrýtið annað en að við myndum ræða okkar samstarf í ríkisstjórn og annars staðar þar sem við erum í samstarfi. Það er alltaf ákveðin áskorun með flokka og stjórnmálahreyfingar sem hafa skýra sýn að deila sínum markmiðum með fólki sem er kannski allt annarrar skoðunar,“ segir Svandís.
„Þegar við erum á þeim tímamótum að vilja horfa inn á við og vilja horfa í ræturnar þá hlýtur þetta að vera á dagskrá og þetta er alveg örugglega eitt af því sem við viljum ræða,“ bætir hún við.
Spurð hvort það sé vísir að klofningi innan flokksins segir Svandís:
„Það hefur alltaf verið okkar áhersla í VG að okkar pólitíska tilvist snúist ekki bara um inntak og stefnumál, heldur líka hvernig við tölum saman. Við viljum hafa ráðrúm til að hafa ólíkar skoðanir og ólíkar áherslur. Við getum líka hlustað hvert á annað. Ég held að við séum bara í samræmi við okkar pólitíska karakter, við tölum um þessa hluti á landsfundi eins og ýmis önnur flókin og erfið mál.“