„Við verðum að sýna ráðdeild og ábyrgð. Ég get ekki bundið bæjarfélagið í 9,65% stýrivöxtum,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Greint var frá því í svari bæjarstjóra við fyrirspurn bæjarfulltrúa Samfylkingar á síðasta fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness að fyrirhuguðu útboði á byggingu nýs leikskóla í bænum hafi verið frestað.
Sagði Þór að í núverandi hávaxtaumhverfi teldu fulltrúar meirihluta ekki heppilegt að bjóða út byggingu leikskóla á meðan lánsfé væri eins dýrt og raun ber vitni. „Við hyggjumst bjóða verkefnið út þegar vextir hafa lækkað og þegar yfirstandandi framkvæmdum við skólahúsnæði bæjarins er lokið,“ sagði Þór og vísar þar til kostnaðarsamra viðgerða í tveimur skólahúsum vegna myglu sem þar greindist.
„Mygluframkvæmdin setti stórt strik í reikninginn, annars værum við farin af stað með leikskólann,“ segir Þór við Morgunblaðið. Hann segir að kostnaður við viðgerðina sé þegar kominn í rúmar 700 milljónir króna.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag