Gæsluvarðhald yfir manninum sem grunaður er um að hafa banað dóttur sinni hefur verið framlengt til 21. október á grundvelli almannahagsmuna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en gæsluvarðhald yfir manninum átti að renna út í dag.
Maðurinn er sá eini sem hefur stöðu sakbornings en hann var handtekinn við Krýsuvíkurveg þann 15. september þar sem lík dóttur hans fannst.
Greint hefur verið frá að rannsókn málsins miði ágætlega en eins og greint var frá á mbl.is hefur lögreglunni borist talsvert af myndefni frá vegfarendum sem óku um Krýsuvíkurveg milli klukkan 13 og 18 sama dag og stúlkan fannst þar látin.