Heildarrúmmálið rúmlega 60 milljón m³

mbl.is/Eyþór

Heildarrúmmál síðasta eldgoss var rúmlega 60 milljón m³ að sögn Veðurstofu Íslands. Fram kemur í nýju yfirliti að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi og landris haldi áfram á svipuðum hraða.

Þá hefur lítil jarðskjálftavirkni mælst í kringum Sundhnúkagígaröðina síðustu vikur.

Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands, að gögn frá GPS-mælum sýni að landris í Svartsengi heldur áfram að mælast á jöfnum hraða. Líkanreikningar byggðir á þeim gögnum sýni einnig að kvikusöfnun undir Svartsengi hafi haldið áfram á svipuðum hraða síðustu vikur.

Þróunin svipar til fyrri atburða

Samkvæmt mælingum á landrisi og áætlun á hraða kvikusöfnunar svipar þróunin til fyrri atburða á svæðinu.

Þá kemur fram að myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands hafi unnið úr gögnum sem sérfræðingar Eflu söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar þann 11. september.

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem myndaðist í …
Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem myndaðist í síðasta eldgosi. Kortið er byggt á mælingum Eflu en úrvinnsla gagna frá Náttúrufræðistofnun. Gráleit svæði sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023. Kort/Veðurstofa Íslands

Flatarmálið 15,8 km²

Gögnin sýna að hraunbreiðan sem myndaðist í síðasta eldgosi (22. ágúst - 5. september) hafi verið 61,2 milljón m³ og 15,8 km² að flatarmáli.

„Gögnin sýna að síðasta gos var það stærsta á Sundhnúkagígaröðinni frá desember 2023. Þykkasti hluti hraunbreiðunnar er staðsettur í kringum gíginn sem var virkur lengst af.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert