Foreldrar grunnskólabarna í Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi kalla eftir því að stjórnendur Reykjavíkurborgar geri allt sem í þeirra valdi stendur til að auka velferð og öryggi barna í borginni. Meðal annars með því að lengja opnunartíma félagsmiðstöðva og sundlauga sem hefur verið skertur síðustu ár.
Í ályktun sem samþykkt var á fundinum segir að það skjóti skökku við að nikótínbúðir hverfanna séu opnar lengur en félagsmiðstöðvar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Fjölmennur fundur um öryggi og velferð barna og ungmenna var haldinn í kvöld í Safamýrinni.
Fundurinn var skipulagður af Foreldraþorpinu sem er samráðsvettvangur stjórna foreldrafélaga níu grunnskóla í Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi.
„Í félagsmiðstöðvum er unnið faglegt starf, þar er kerfi til staðar, það þarf ekkert átaksverkefni — bara styðja við starfið sem er fyrir. Krakkar og unglingar þurfa að vera einhvers staðar, þau þurfa staði til að hanga á og þau þurfa að gera eitthvað. Samvera með fjölskyldu er mikilvæg en þú þarft líka að vera með jafnöldrum þar sem uppbyggileg samskipti eiga sér stað. Vinsæll staður til að hanga á er Hagkaup í Skeifunni. Þar er opið allan sólarhringinn og nú er þar selt áfengi,“ segir í ályktuninni.
„En þar eru líka hópar sem lögregla, skólarnir og félagsmiðstöðvarnar þekkja vel og vara foreldra við á fundum þar sem rætt er um forvarnir. Við getum ekki treyst Hagkaup í Skeifunni fyrir unglingunum, það er ekki þeirra hlutverk að vera félagsmiðstöð. Þá skýtur það skökku við að nikótínbúðir hverfanna séu opnar lengur en félagsmiðstöðvarnar,“ segir þar enn fremur.
Þá kemur fram að einnig þurfi að bæta aðstöðumál félagsmiðstöðvanna og passa að þær séu sem næst unglingadeildum skólanna.
Benda foreldrar á að mikilvægt sé að opnunartími sundlauga sé rýmkaður um kvöld og helgar og segir í tilkynningunni að óskiljanlegt sé að á þeim tíma þegar unglingar vilji hittast sé ekki í boði að fara í sund.
„Við þurfum að tryggja að þjónustan við unglinga sé aukin í samræmi við fjölgun barna. Í stað þess að skera niður í þjónustu við börnin og unglingana okkar þurfum við að bæta í,“ segir í ályktuninni.
Undir hana skrifa foreldrar barna í Álftamýrarskóla, Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla, Hvassaleitisskóla, Langholtsskóla, Laugalækjarskóla, Laugarnesskóla, Réttarholtsskóla og Vogaskóla.