„Þetta er bara mjög erfitt“

Brotist var inn í tvær verslanir ELKO aðfaranótt gærdagsins og …
Brotist var inn í tvær verslanir ELKO aðfaranótt gærdagsins og segir framkvæmdastjóri verslanir standa frammi fyrir gjörbreyttum raunveruleika. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum búin að vera í góðu sambandi við lögregluna og erum eiginlega enn þá á því stigi að við erum ekki að gefa neitt upp,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson framkvæmdastjóri ELKO um innbrot í tvær verslanir fyrirtækisins, í Skeifunni og Lindum, aðfaranótt gærdagsins.

Hann segir innbrotin hafa komið illa við starfsfólk fyrirtækisins sem upplifði að ruðst væri inn á vinnustað þess í skjóli nætur og tjón unnið þar. „Þetta er bara mjög erfitt þótt þetta gerist þegar verslunin er lokuð,“ segir framkvæmdastjórinn, „það er verið að vaða inn á okkar vinnusvæði og þetta er gríðarlega óþægileg upplifun. Við höfum haldið vel utan um fólkið okkar og verðum með starfsmannafund sérstaklega vegna þessa,“ heldur hann áfram.

Miklu meiri ráðstafanir

Inntur eftir nýlegum innbrotum í verslanir ELKO bendir Óttar á slíkt tilvik í verslun fyrirtækisins úti á Granda fyrir nokkrum misserum. Meira sé hins vegar um búðaþjófnað á afgreiðslutíma verslananna sem sé ört vaxandi vandamál.

„Við sjáum að meira skipulag er komið í búðaþjófnað á Íslandi, þetta eru skipulagðir hópar núna, ekki bara eitthvað tilfallandi. Ég veit að fyrirtæki bæði hér og á meginlandi Evrópu hafa þurft að gera miklar ráðstafanir og miklu meiri ráðstafanir en áður varðandi þjófnað,“ segir Óttar.

Segir hann fyrirtækin því hafa aukið mjög við vöruvarnir og öryggisgæslu, svo sem með myndavélaeftirliti í verslunum. „Það er daglega verið að stela af okkur, við vitum það, og við vitum að það er fólk sem fer á milli verslana til að reyna,“ segir hann en ELKO notast að hluta við eigin gæslu auk þess sem einhver hluti gæslunnar sé aðkeyptur.

„Þetta er bara nauðsynlegt að mínu mati,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson framkvæmdastjóri ELKO að lokum um innbrot aðfaranótt gærdagsins og hraðvaxandi ógn sem sækir að hans og fleiri fyrirtækjum í skugga skipulagðrar glæpastarfsemi og fingralengdar þeirra sem kjósa að taka hlutina án þess að greiða fyrir þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert