Umferðarslysið var útafakstur og bílvelta

Veginum hefur verið lokað.
Veginum hefur verið lokað. Skjáskot/umferdin.is

Tveir voru í bifreið sem valt og hafnaði utan vegar við Fossá á Skaga fyrr í dag. 

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, greinir frá þessu í samtali við mbl.is.

„Það stendur yfir vettvangsrannsókn og fulltrúar frá rannsóknarnefnd samgönguslysa koma. Ég veit ekki hvort þeir séu komnir á vettvang. Ég hef ekki upplýsingar um það,“ segir Birgir.

„Þetta er alvarlegt umferðarslys,“ bætir hann við.

Samkvæmt umferdin.is er vegurinn enn lokaður þar sem slysið varð. 

Frekari upplýsingar komi frá lögreglu seinna í dag

Lögreglustjórinn tekur fram að tvær manneskjur hafi verið í bílnum.

Er eitthvað vitað um líðan þeirra sem voru í bílnum?

„Ég get ekki staðfest það en þetta er alvarlegt umferðarslys.“

Þá getur Birgir ekki heldur staðfest kyn þeirra sem voru í bílnum eða þjóðerni.

Segir hann að lögreglan á Norðurlandi vestra muni senda frá sér tilkynningu seinna í dag þar sem frekari upplýsingar verði veittar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka