230 milljóna króna styrkur til vísindamanns við HÍ

3.500 manns sóttu um styrkinn í ár.
3.500 manns sóttu um styrkinn í ár. Ljósmynd/Aðsend

Doktor Gianluca Levi, vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, hlaut nýverið 230 milljóna króna styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu (ERC) til rannsóknarverkefnis sem miðar að því að þróa nýjar aðferðir og tækni sem auðveldar þróun nýrra og hagkvæmari leiða til að nýta sólarorku. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands. 

Rannsóknarverkefnið er til fimm ára og er grunnrannsókn sem felst í því að ræða þróun á nýjum reikniaðferðum og innleiðingu þeirra.

Grundvöllur nýrra uppgötvana

Í tilkynningunni segir að grunnrannsóknir hafi verið grundvöllur flestra uppgötvana og nýjunga sem við þekkjum í nútímasamfélagi. 

„Rannsóknin tengist lífefnafræðilegum ferlum sem eru vel þekktir í náttúrunni, eins og ljóstillífun sem plöntur nota til að vinna orku úr sólarljósi. Í þessum ferlum á sér stað umröðun á bæði rafeindum og atómum í sameindum fyrir tilstilli orkunnar sem berst frá sólinni í formi ljósenda,“ segir í tilkynningunni.

„Einnig hafa verið þróuð kerfi sem að hluta líkja eftir ljóstillífun og framleiða orkurík efni. Kerfin eru hins vegar ekki mjög skilvirk eða hagkvæm, m.a. vegna þess að það skortir betri skilning á þeim ferlum sem eiga sér stað þegar sólarljósi er breytt í orkuríkar sameindir.“

Fá stuðning frá nýjustu tækni

Markmið rannsóknarinnar er að varpa skýrara ljósi á þessi ferli með stuðningi frá nýjustu tækni og reikniaðferða sem Gianluca og samstarfsfólk hans hefur verið að þróa. 

„Ætlunin er að öðlast betri skilning á því hvernig atóm og rafeindir bregðast við þegar ljósgeislar lenda á sameindum og þær gleypa í sig ljóseindir.“

Þetta er í níunda skipti sem vísindafólk við Háskóla Íslands fær styrkinn frá ERC á undanförnum árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert