Auka þarf raforkuöflun og virkja meira

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þekkjum dæmi um það og líka dæmi um verkefni sem eru í biðstöðu, fyrirtæki hafa hér og þar um landið haft áhuga á að stækka en eiga í erfiðleikum með að fá meiri raforku,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Morgunblaðið spurður hvort þess séu mörg dæmi að fyrirtæki sem hug hafa haft á starfsemi hér á landi hafi þurft frá að hverfa sökum þess að ekki hafi reynst unnt að útvega þeim raforku til starfseminnar.

„Það kannast allir við þetta í öllum landshlutum. Það er áhugi á uppbyggingu sem ekki verður af vegna þess að það er ekki til orka, eða þá að ekki er mögulegt að koma orkunni þangað sem þarf sem snýr þá að flutningskerfi raforku,“ segir hann.

Sigurður nefnir að á sama tíma sé samfélagið að vaxa og orkuþörf þar með vaxandi. Einnig hafi orkuskipti og rafbílavæðing áhrif, þar sem meiri eftirspurn sé eftir raforku.

„Í þessu sambandi er áhugavert að hugsa til þess að raforka er orðin takmarkandi þáttur á Íslandi sem er eitthvað sem við höfum ekki kynnst fyrr en á allra síðustu árum. Birtingarmynd þess er skerðingar Landsvirkjunar á raforku síðustu ár. Aðra birtingarmynd má sjá á Alþingi þar sem nokkur mál um raforkuöryggi sem snúa að raforkumarkaðinum hafa komið fram,“ segir Sigurður, en tvö slík mál komu fram á síðasta þingi en náðu ekki fram að ganga.

Sigurður bendir á að skorti á raforku sé mætt með auknum innflutningi og notkun á olíu og nefnir þar fjarvarmaveitur, fiskvinnslur og fiskimjölsverksmiðjur.

„Þetta er þvert á markmið stjórnvalda um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040. Ferli framkvæmda á Íslandi er mjög flókið, á sama tíma og önnur ríki eru að reyna að einfalda ferlið í þágu grænnar orkuöflunar hafa framkvæmdir hér verið fastar í kerfinu svo árum skiptir,“ segir Sigurður og nefnir Hvammsvirkjun í því sambandi.

Sigurður segir mikinn áhuga á uppbyggingu í landeldi og ljóst að ýmis fyrirtæki í þeirri grein muni eiga erfitt með að fá þá orku sem til þarf.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert