Fáar vísbendingar um almennan greiðsluvanda

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenska fjármálakerfið stendur traustum fótum. Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka er sterk, aðgengi að fjármögnun gott og fjármögnunarkostnaður erlendis hefur lækkað. Þrálát verðbólga samhliða hægari vexti efnahagsumsvifa getur skapað áskoranir fyrir fjármálakerfið.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans.  Hún hefur ákveðið að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5%.

Hátt fasteignaverð

Þar segir að fasteignaverð sé hátt og afleiðingar eldsumbrotanna á Reykjanesskaga og fólksflutningar til landsins hafi meðal annars átt þátt í hækkun þess síðustu misseri. Umsvif í byggingariðnaði séu enn nokkuð kröftug, líkt og merki séu um af vinnumarkaði og vexti útlána til byggingageirans. Sterk eiginfjárstaða margra lántakenda veiti svigrúm til endurskipulagningar útlána ef þörf krefur.

Verðbólga og háir vextir áskorun

„Fáar vísbendingar eru um almennan greiðsluvanda heimila og fyrirtækja þrátt fyrir að mikil verðbólga og háir vextir reynist mörgum áskorun. Takmarkanir á skuldsetningu við fasteignakaup, launahækkanir og hátt atvinnustig eiga ríkan þátt í viðnámsþrótti heimila. Sókn heimila og fyrirtækja í verðtryggð lán á kostnað óverðtryggðra hefur leitt til þess að verðtryggingarójöfnuður bankanna hefur vaxið, enda stærstur hluti fjármögnunar þeirra óverðtryggður. Þetta gæti reynst áskorun fyrir fjármálakerfið,“ segir í yfirlýsingunni.

„Fjármálastöðugleikanefnd hefur ákveðið að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5%. Álagspróf Seðlabanka Íslands á kerfislega mikilvæga banka gefa til kynna að þeir gætu staðist umtalsvert álag. Ekki hefur dregið úr áhættu í fjármálakerfinu og telur nefndin því mikilvægt að fjármálafyrirtæki búi við sterka eiginfjárstöðu,“ segir þar einnig.

Nefndin undirstrikar í yfirlýsingunni mikilvægi þess að unnið sé að auknu rekstraröryggi í greiðslumiðlun og mun hún beita sér fyrir aðgerðum sem miða að því að draga úr undirliggjandi rekstraráhættu.

„Nokkuð hefur þegar áunnist en nefndin telur mikilvægt að lokið verði við samhæfingaráætlun fyrir fjármálamarkaði um snemmbær, samhæfð og skilvirk viðbrögð við rekstraratvikum.“

Fram kemur að nefndin muni sem fyrr beita þeim stýritækjum sem hún hafi yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert