Fjórir í haldi: Stálu tugum milljóna úr Elko

Verðmæti þýfisins úr Elko nemur tugum milljóna króna.
Verðmæti þýfisins úr Elko nemur tugum milljóna króna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjórir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald fram á föstudag í tengslum við innbrotið í verslanir Elko í Skeifunni og Lindum aðfaranótt mánudags.

Að sögn Heimis Ríkharðssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, nemur verðmæti þýfisins tugum milljóna króna.

Komust í peningakassa

„Þetta er mikið magn sem þeir taka af tækjum, svo komast þeir í peningasjóðsvél líka,“ segir Heimir.

Hún var í versluninni í Lindum en Heimir vill að svo stöddu ekki greina frá upphæðinni sem var tekin þaðan.

Sjö handteknir

Þrír karlmenn og ein kona eru í haldi vegna málsins. Þau eru öll af erlendu bergi brotin og eru ekki með íslenskan ríkisborgararétt.

Alls voru sjö handteknir í tengslum við þjófnaðinn en þremur var sleppt eftir yfirheyrslur. Ekki var krafist gæsluvarðhalds yfir þeim. Þýfið er enn ófundið. 

Heimir segist ekki geta sagt til um hvort þjófnaðurinn tengist skipulagðri glæpastarfsemi. 

Þrír á leiðinni úr landi

RÚV greinir frá því að þjófarnir hafi komið í tvígang í verslanirnar og látið greipar sópa. Þrír voru handteknir á mánudagskvöld á Keflavíkurflugvelli á leiðinni úr landi. Fjórir til viðbótar voru handteknir í framhaldinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert