„Hvítabjörn“ gekk inn í tíma hjá háskólanemum

Undarlegt atvik átti sér stað í tíma hjá nemendum í Háskóla Íslands sem sátu í fyrirlestrarsal í Háskólabíó. Maður gekk inn í tímann í búning sem hvítabjörn sem virðist eiga að vera særður, en rauður litur er á búningnum.

Í myndskeiðinu að ofan má sjá atvikið en nemandi sem varð vitni að atvikinu segir að hulin ráðgáta sé hver boðskapur gjörningsins er.

„Auðvitað fara strax af stað einhverjar sögusagnir. Sumir halda að þetta sé eitthvað flipp, aðrir halda að þetta sé tengt málinu um ísbjörninn [sem var felldur nýlega] en meira veit ég ekki,“ segir nemandinn.

Nemendur hlógu að gjörningnum

Nemandinn segir að maðurinn í búningnum hafi gengið inn „og allir fóru að hlæja“. Svo settist hann niður og sagði ekki orð.

„Kennarinn vissi ekki alveg hvernig hann átti að bregðast við þessu,“ segir nemandinn.

Brást kennarinn einhvern veginn við?

„Nei. Hann horfði á hann og í rauninni var hann pínu orðlaus. Svo settist gaurinn í búningnum og hallaði sér aftur,“ segir nemandinn og útskýrir að kennarinn hafi haldið áfram að kenna eins og ekkert hefði í skorist.

Maðurinn í búningnum var aðeins í nokkrar mínútur í salnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert