Margir eigi óskráðar byssur „frá afa“

Sumir eru ómeðvitaðir um nýlegar breytingar á vopnalögum sem tóku …
Sumir eru ómeðvitaðir um nýlegar breytingar á vopnalögum sem tóku gildi á þessu ári, þar sem þyngst vegur ákvæði um að öll skotvopn skulu geymd í viðurkenndum skotvopnaskápum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögregla hefur reglubundið eftirlit með skotvopnaeigendum og geta viðkomandi átt von á heimsókn lögreglu án fyrirvara til að kanna vörslur skotvopna og skotfæra. Í fórum manna hafa fundist nokkur gömul skotvopn „frá afa“ sem eru ekki skráð á þann sem varslar þau.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur heimsótt á þriðja hundrað manns það sem af er ári.

Heilt yfir eru skotvopnaeigendur að standa sig vel þegar kemur að vörslum skotvopna og skotfæri, að sögn lögreglu.

Hvað ef ég vil lána einhverjum byssuna mína?

„Betur má þó ef duga skal,“ skrifar lögreglan.

Margir virðist ekki meðvitaðir um nýlegar breytingar á vopnalögum sem tóku gildi fyrr á þessu ári, þar sem þyngst vegur ákvæði um að öll skotvopn skulu geymd í viðurkenndum skotvopnaskápum. Fyrir breytinguna var þetta ekki krafa fyrr en við fjórða skotvopn.

Þá sé það jafnframt skylda að skotvopn skulu geymd á lögheimilum manna, nema sérstök undanþága lögreglu komi til.

Lögregla bendir einnig á að þó heimilt sé að lána skotvopn öðrum aðila með gilt skotvopnaleyfi skal slíkt lán ávallt vera skriflegt og skal lánþegi geta framvísað slíku leyfi sé þess óskað.

Sé lánið til lengri tíma en 4 vikna skal tilkynna lögreglu um lánið í gegnum island.is (Lánstilkynning skotvopns).

Skiptir litlu hvort skotvopnin koma „úr sveitinni“

Sömuleiðis séu nokkur brögð að því að í fórum manna finnist gömul skotvopn sem í flestum tilfellum reynast hafa komið „frá afa“ en eru ekki skráð á þann sem varslar þau.

Lögreglan bendir á að það sé mikilvægt að skotvopnaleyfishafar séu meðvitaðir um að óheimilt er að varsla skotvopn án tilskilinna leyfa, óháð því hvort þau koma „úr sveitinni“ eða annars staðar frá.

Þeim sem kunna að lúra á slíkum vopnum er bent á að hafa samband við leyfi@lrh.is og þá er í flestum tilfellum hægt að fá vopnin skráð á sig, enda er iðulega hægt að finna uppruna þeirra. Enn fremur er hægt að skila inn til lögreglu slíkum vopnum og láta farga þeim.

Að lokum er brýnt fyrir skotvopnaleyfishöfum að tryggja að skotvopnaleyfi sé í gildi, enda gera vopnalögin engan greinarmun á útrunnu leyfi og leyfisleysi. Hægt er að skoða eigin leyfi og skráð skotvopn á island.is – Mínar síður – Skírteini – Skotvopnaleyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert