Missa líklega íhaldskjósendur til Miðflokksins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Kjósendur Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru nær samstíga þegar kemur að efnahagsmálum en í menningarmálum eru kjósendur Miðflokksins íhaldssamari.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru þó meira íhaldsamir en frjálslyndir í menningarmálum og því má gera ráð fyrir því að stuðningstap flokksins megi rekja til þess að íhaldskjósendur flokksins íhugi nú að kjósa Miðflokk.

Lognmolla í ólgusjó er bók sem nokkrir prófessorar við Háskóla Íslands munu gefa út í vetur og er hún byggð á Íslensku kosningarannsókninni frá árinu 2021.

Í bókinni er graf sem sýnir málefnaviðhorf kjósenda hvers flokks og í grafinu er menningarás og efnahagsás. Fram kemur t.d. að kjósendur Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum voru meira íhaldssamir heldur en frjálslyndir. Kjósendur Miðflokksins eru þó í enn ríkari mæli þjóðlegir íhaldsmenn.

Heimildin greindi fyrst frá. 

„Færa sig yfir á Miðflokkinn“

Útskýringu á fylgistapi Sjálfstæðisflokksins yfir til Miðflokksins að undanförnu gæti meðal annars verið sú að Sjálfstæðisflokkurinn er að tapa íhaldsmönnum yfir til Miðflokks.

„Það sem virðist vera er að ýmsir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafa viðhorf sem eru í meira áttina að þjóðlegri íhaldssemi og þá getur það skýrt af hverju þeir eru að færa sig yfir til Miðflokksins,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði og einn af höfundum bókarinnar, í samtali við mbl.is.

Hann segir þó aðra þætti geta útskýrt af hverju fylgi Sjálfstæðisflokksins sé að minnka og það geti til dæmis verið það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið lengi við stjórnvölinn.

Höfundar bókarinnar auk Ólafs eru Hulda Þórisdóttir, Agnar Freyr Helgason, Eva H. Önnudóttir og Jón Gunnar Ólafsson. Hafsteinn Einarsson er meðhöfundur að einum kafla.

Málefnaviðhorf kjósenda stjórnmálaflokka.
Málefnaviðhorf kjósenda stjórnmálaflokka. Tölvuteiknuð mynd/Agnar/Helga

Álíka miklir markaðshyggjusinnar

Aftur á móti sést glögglega að kjósendur Miðflokks og Sjálfstæðisflokks eru álíka miklir markaðshyggjusinnar

„Ef þetta væri það eina sem réði þá gætu þeir kosið hvort heldur væri Miðflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Ólafur.

Ólafur segir að Sjálfstæðisflokkurinn á árum áður hafi náð utan um skoðanir kjósenda Miðflokksins. Þróunin á Íslandi hafi samt verið þannig að flokkum hafi fjölgað og þeir hafi höfðað til einsleitari kjósendahópa.

„Þannig það verður sífellt erfiðara fyrir þessa gömlu stóru flokka að halda í allt sitt fylgi með ólíkar skoðanir og það gildir um Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Ólafur og bendir á það að það gildi einnig um Sósíaldemókrata í Noregi, Svíþjóð og Danmörku sem voru álíka stórir og Sjálfstæðisflokkurinn.

Ólafur Þ.Harðarson stjórnmálafræðingur.
Ólafur Þ.Harðarson stjórnmálafræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýr samkeppnisaðili á hægri vængnum

Er hægt að segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé að blæða íhaldsmönnum úr flokknum yfir í Miðflokkinn.

„Við vitum það ekki nákvæmlega en þessi mynd bendir til þess að það gæti mjög líklega verið það sem er að gerast,“ svarar Ólafur.

Myndin sem sýnir málefnaviðhorf kjósenda kemur úr kafla sem er eftir Agnar Frey Helgason, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Huldu Þórisdóttur.

„Áður en að Miðflokkurinn bauð fram þá sat Sjálfstæðisflokkurinn svolítið einn að þessu fylgi en núna eru þeir í rauninni komnir með nýjan samkeppnisaðila á hægri væng stjórnmálanna og sérstaklega þegar kemur að þessum menningarás sem við notum. Fyrir vikið þá er hann kominn í aukna baráttu um þessa kjósendur sem kannski var ekki til staðar áður,“ segir Agnar í samtali við mbl.is.

Byggt á svörum við ýmsum spurningum

Spurt var um afstöðu fólks til ýmissa menningar- og efnahagsmála.

Í menningarásnum var spurt um afstöðu fólks til afglæpavæðingu fíkniefna, jafnrétti kynjanna, róttækrar kynjabaráttu, umhverfisvernd, stóriðjustefnu, innflytjendamála, áhrifa aðildar að EES-samningnum á fullveldi og aðild Íslands að ESB.

Í efnahagsásnum var spurt um umfangs hins opinbera og lækkun skatta, einkarekstur í heilbrigðisþjónustu og það hvort ríkið eigi að reyna að jafna dreifingu tekna í samfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert