Munaði 15 milljónum rúmmetra

Horft yfir eldgosið sem hófst 22. ágúst.
Horft yfir eldgosið sem hófst 22. ágúst. mbl.is/Árni Sæberg

Heildarrúmmál síðasta eldgoss í Sundhnúkagígaröðinni var um 15 milljónum rúmmetra meira en í gosinu þar á undan sem hófst 29. maí.

Síðasta eldgos var um 60 milljónir rúmmetra á meðan eldgosið þar á undan var um 45 milljónir. Eldgosið sem kom á undan því og hófst 16. mars var síðan enn minna, eða um 34 milljónir rúmmetra.  Það varði í rúmlega 50 daga á meðan nýjasta gosið varði í tvær vikur, eða frá 22. ágúst til 5. september.  

Þetta segir Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Bjuggust alltaf við stærra gosi

Spurð hvort heildarrúmmál síðasta eldgoss hafi verið meira en Veðurstofan bjóst við segir hún erfitt að spá fyrir um heildarmagn rúmmáls í upphafi goss. Hingað til hafi gosin farið stækkandi.

Búist var við því að talsvert af efni kæmi upp enda mikið safnast upp í kvikuhólfinu.

„Það var alltaf búist við því að það yrði líklegast stærra en síðasti atburður en hversu mikið stærra var ekki alveg vitað,“ segir Ingibjörg Andrea um nýjasta gosið, sem var það stærsta í Sundhnúkagígaröðinni frá upphafi, eða síðan í desember 2023. Heildarrúmmál þessa fyrsta gos á þessum stað var um 11 milljónir rúmmetra.

Fimm og hálf milljón safnast upp 

Ingibjörg Andrea segir stöðuna við Sundhnúkagígaröðina núna vera mjög rólega. Landris mælist áfram en jarðskjálftavirkni er mjög lítil. Á mánudaginn hafði um fimm og hálf milljón rúmmetra af kviku safnast upp í kvikuhólfinu undir Svartsengi. Þegar síðasta eldgos hófst höfðu rétt rúmlega 20 milljónir rúmmetra safnast þar upp.

„Þetta er rólegt og fallegt eins og haustveðrið sem er búið að vera,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert