Agnar Már Másson
Skráningum í Miðflokkinn hefur fjölgað talsvert síðustu vikur, á sama tíma og fylgi flokksins er á blússandi siglingu samkvæmt skoðanakönnununum.
Í nýjustu könnun Maskínu mælist flokkurinn með með 17% fylgi. Þá er hann með 3,6 prósentustiga forskot á Sjálfstæðisflokkinn en munurinn þykir tölfræðilega marktækur.
En fylgi flokksins er ekki það eina sem hefur aukist.
„Skráningar í flokkinn hafa tekið algjört risastökk undanfarið,“ segir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is.
„Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með bæði fjölgun og aldurssamsetningunni, þar sem ungt fólk er að koma mjög sterkt inn.“
Í raun hafi skráningum farið að fjölga í vor. Aukningin sé því í raun ekki alveg ný tilkomin.
„Svo er þetta áberandi annað stökk þegar haustþing kom saman aftur og búið að vera stöðugt frá þingsetningu,“ segir Bergþór, sem kveðst þó ekki geta gefið upp fjölda skráðra Miðflokksmanna að svo stöddu.
„Þetta er nú einhver speglun á því sem við erum að sjá í könnunum. Fólk er tilbúnara að láta vita af sér og taka þátt, vera hluti af þessari heild sem Miðflokkurinn er.“