Tugmilljóna launakröfur ekki samþykktar

Vietnam Restaurant er eitt gjaldþrota félaga Quang Le.
Vietnam Restaurant er eitt gjaldþrota félaga Quang Le. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skiptastjórar í þrotabúum félaga sem áður voru í eigu Quang Le hafa hafnað launakröfum fyrrverandi starfsfólks að hluta til eða að svo stöddu.

Ástæðan er sú að skiptastjórar telja sig ekki hafa nægjanlegar upplýsingar um það hvort starfsfólk hafi raunverulega unnið þær vinnustundir sem lagðar eru til grundvallar að baki kröfunum. 

Kröfurnar eru vegna meintra vangoldinna launa en eins og fram hefur komið er Quang Le með stöðu sakbornings og lúta ásakanir meðal annars að vinnumansali.

Launakröfurnar eru margar hverjar yfir 20 milljónum króna og þær hæstu eru nærri 36 milljónum króna samkvæmt heimildum mbl.is. 

Eins og fram hefur komið eru fimm af sjö félögum sem áður voru í eigu Quang Le gjaldþrota.

Það eru Wokon ehf. og Wokon mathöll ehf., Vietnam Restaurant, Vietnam Cuisine og VY þrif.

Eftir standa NQ fasteignir og Vietnam Market. 

Wok on ehf er eitt þeirra félaga sem er gjaldþrota. …
Wok on ehf er eitt þeirra félaga sem er gjaldþrota. Vörumerkið er til sölu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skiptastjórar í snúinni stöðu 

Skiptastjórar þriggja félaga, Wokon ehf, EA 17 og Vietnam Cuisine hafa annaðhvort hafnað kröfum að hluta, að svo stöddu, eða frestað ákvörðun vegna þess að ekki hafa nægjanlegar upplýsingar komið fram.

Skiptastjórar eru sagðir í snúinni stöðu varðandi það að taka afstöðu til krafnanna. Helgast það af því að hinar háu launakröfur byggja á meintu vinnumansali en enn hefur ekki verið ákært í máli Quang Le og því eðlilega ekki komin niðurstaða í málið. Þá liggur hvergi fyrir pappírsslóð sem færir sönnur á mál starfsmannanna.

Fimm af sjö félögum Quang Le eru gjaldþrota.
Fimm af sjö félögum Quang Le eru gjaldþrota. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hins vegar liggur fyrir framburður starfsmanna sem segjast hafa þurft að vinna langa vinnudaga án þess að hafa fengið greitt nægjanlega fyrir. Úr öðru hafa skiptastjórar ekki að moða við ákvörðun sína.

Hafnað að hluta til 

„Búið er að tilkynna afstöðu til fyrrum launamanna hjá Wokon. Kröfunum er hafnað að hluta til,“ segir Einar Hugi Bjarnason, skiptastjóri Wokon ehf. og Wokon mathallar ehf.

Einar Hugi Bjarnason
Einar Hugi Bjarnason Ljósmynd/Aðsend

Magnús Björn Brynjólfsson, skiptastjóri EA 17, segist hafa hafnað kröfunum að svo stöddu. 

„Ég er að bíða eftir því að fá frekari skýringar frá lögmanni starfsmanna,“ segir Magnús. 

„Vantar meira kjöt á beinið“ 

Hann segir að af framburði þeirra launamanna sem hafa gert kröfu í búið að dæma hafi þeir unnið svo til myrkranna á milli.

„Það er svolítið erfitt fyrir mig að rengja það en mig vantar meira kjöt á beinið til að ég láti sannfærast,“ segir Magnús.

Starfsfólk getur haft uppi ágreining um niðurstöðu skiptastjóranna og í slíkum tilfellum er hægt að fara með hann fyrir dómstóla.

Ábyrgðasjóði launa ber að greiða starfsfólki vangreidd laun. Hins vegar fer hann alla jafna eftir afstöðu skiptastjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert