Arnar Þór Jónsson, lögmaður og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, segir að viðræður við Miðflokkinn hafi fjarað út og engu skilað. Því sé hann að undirbúa stofnun nýs stjórnmálaflokks um „íslenska hagsmuni“.
„Viðræðunum er í raun lokið. Þær stóðu yfir í sumar og hafa dregist á langinn út af sumarfríum og öðru. Nú þarf ég að huga að næstu skrefum,“ segir Arnar Þór.
Hann segist hafa lagt fram ýmsar hugmyndir og tillögur sem fulltrúar Miðflokksins óskuðu eftir. Hann fékk hins vegar engin efnisleg svör.
„Þetta í raun fjaraði út. Það komu í raun engin viðbrögð. Ég sé svolítið eftir tímanum sem fór í þetta en ég taldi mikilvægt að reyna þetta til þrautar. Fólk í kringum mig vildi láta á þetta reyna frekar en að stofna nýjan flokk frá grunni. En í því fólst þá m.a. að mögulega hefði þurft að gera vissar breytingar á innra starfi Miðflokksins. Ég get því ekkert gert annað en að halda áfram með mitt líf og mínar áætlanir,“ segir Arnar.
Samtölin voru við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, og Bergþór Ólafsson þingmann.
„Þetta voru góð samtöl og ég óska þeim alls hins besta. Það getur vel farið svo að við náum að vinna saman ef ég stofna flokk sem kemst á þing. Þetta er því allt í mestu vinsemd,“ segir Arnar Þór.
Að sögn Arnars Þórs yrðu áherslur hins nýja flokks væntanlega í grófum dráttum þær að tryggja einstaklingsfrelsi, tjáningarfrelsi, sjálfbærni í matvælaframleiðslu, örugg landamæri og að standa vörð um íslenska hagsmuni á alþjóðavettvangi.
„Það verður að fara að örva hagvöxtinn, draga úr skattpíningunni og vaxtaokrinu sem er að drepa okkur. Eins þarf að skrúfa fyrir þessa krana sem peningarnir streyma út um. Sem eru loftlagsmál, útlendingamál og stjórnlaus útþensla ríkisins,“ segir Arnar Þór.