131 milljón frá erlendum manni: Gjöf eða lán?

Aðalmeðferð í málinu fór fram fyrir Héraðsdómi Suðurlands á þriðjudaginn
Aðalmeðferð í málinu fór fram fyrir Héraðsdómi Suðurlands á þriðjudaginn mbl.is/Iðunn

Aðalmeðferð í máli þriggja kvenna fyrir meiri háttar brot gegn skattlögum fór fram fyrir Héraðsdómi Suðurlands á þriðjudaginn. Meint brot kvennanna nema samtals rúmum 200 milljónum króna.

Um er að ræða mæðgur og fjölskylduvinkonu þeirra sem allar tóku á móti háum fjárupphæðum frá auðkýfingi búsettum á Bahamaeyjum á árunum 2014-2017. Eru þær sakir bornar á konurnar að hafa ekki talið fram upphæðirnar sem peningagjafir í skattframtölum sínum.

Fékk yngsta konan meira en 131 milljón króna frá manninum og skráði það sem lán í skattskýrslu sinni. 

Gjafir teljast til skattskyldra tekna á Íslandi, séu þær umfram verðmæti hefðbundinna tækifærisgjafa. Deilt er um það í málinu hvort um gjafir eða lánveitingar hafi verið að ræða.

„Peningar breyta fólki“

Elsta konan sem málið lýtur að er á sjötugsaldri, dóttir hennar á fertugsaldri og sú yngsta á þrítugsaldri. Sú yngsta og sú elsta neita báðar sök. Konan á fertugsaldri játaði sök fyrir dómnum á þriðjudag í gegnum fjarfundarbúnað en hún er í dag búsett erlendis sökum húsnæðisörðugleika að eigin sögn.

„Peningar breyta fólki,“ sagði ein hinna ákærðu í yfirheyrslu fyrir dómnum í gær en málið einkennist af gremju, afbrýðisemi og ósætti á milli hinna ákærðu og tengslum þeirra við mann á Bahamaeyjum sem kallar sig „Billy.“

Fer ákæruvaldið fram á að konurnar verði fundnar sekar um skattalagabrot og verði gert að greiða þrefalda upphæð þess sem þær skuldi í skatt. Þess að auki mælist saksóknari til þess að þær verði dæmdar til fangelsisrefsingar.

Ekki er mjög algengt að  fólk sé dæmt til að borga þrefalda upphæð í refsingu, en þó allavega tvö dæmi frá síðustu árum. Sagði verjandi einnar hinna ákærðu fráleitt að beita svo þungum refsingum í málum er lúta að brotum sem ekki eru framin af ásetningi.

Þekkti manninn í 30 ár

Elsta konan var fyrst til að gefa skýrslu fyrir dómnum í gær og kvaðst í miklu uppnámi yfir málinu. Er henni gefið að sök að hafa ekki talið fram ríflega 52,4 milljónir króna sem lagðar voru inn á reikning hennar af erlenda manninum í fjórum greiðslum á árunum 2014-2017. Reiknast skattayfirvöldum til að konan skuldi ríflega 20,7 milljónir króna í tekjuskatt og útsvar.

Sagði hún íslenskt dómskerfi ítrekað hafa brugðist sér og að hún væri öryrki á skertum bótum í dag. Hún hafi ekki reynt að svíkja undan skatti og neiti alfarið sök.

Kveðst hún hafa þekkt manninn í yfir 30 ár og hann margsinnis beðið hana um að giftast sér. Hún hafi þó ítrekað afþakkað boðin sökum þess að hún hafði ekki áhuga á honum og vegna áfengisvandamála sem hann stríði við.

Hann hafi þó verið eins konar föðurímynd í lífi dóttur hennar sem hafi þekkt hann frá því að hún var barn og að þær mæðgur hafi verið í einhverjum samskiptum við hann í gegnum árin.

Þrjár konur eru ákærðar fyrir meiri háttar brot gegn skattlögum.
Þrjár konur eru ákærðar fyrir meiri háttar brot gegn skattlögum. mbl.is/Iðunn

Veitingastaðurinn var að fara á hausinn

Dóttir hennar hafi haft samband við manninn árið 2014 og beðið hann um að aðstoða þær fjárhagslega þegar veitingarekstur móðurinnar var illa staddur. Voru erfiðleikarnir að sögn konunnar sökum framkvæmda borgarinnar á götunni þar sem veitingastaðurinn var til húsa.

Ber konan fyrir sig að fjárveitingin frá manninum hafi verið persónulegt lán án vaxta til þess að greiða skuldir fyrirtækisins. Hún hafi ávallt þurft að afhenda einkaritara mannsins gögn til að sýna fram á nákvæma fjárhæð sem hana vantaði hverju sinni. Þá hafi maðurinn sömuleiðis lánað henni peninga eftir að hún lenti í líkamsárás árið 2017 til að greiða starfsfólki fyrirtækisins á meðan hún var óvinnufær sjálf.

Ákæruvaldið telur ólíklegt að féð teljist til láns til fyrirtækisins þar sem upphæðirnar hafi verið lagðar inn á konuna en ekki fyrirtækið. Þess að auki hafi maðurinn ítrekað skráð færslurnar sem gjafir og enginn lánasamningur liggi fyrir.

Vissi ekki að færslurnar væru skráðar sem gjafir

Konan segist alfarið hafa stólað á að bókarinn hennar væri að haga og skrá allt með réttum hætti. Bókarinn hafi á tímapunkti hringt og spurt sig hvernig hún ætti að skrá lánið í skattframtalinu og hún hafi þá sagt að hún yrði að finna leið til þess.

Sagðist bókarinn, sem bar vitni í málinu, aftur á móti einungis hafa annast skattframtöl fyrirtækisins – ekki konunnar. Konan hafi lánað fyrirtækinu peninga en bókarinn kveðst ekki hafa rætt sérstaklega við hana hvaðan þeir peningar væru fengnir. Konan hafi einhvern tímann minnst á að hún ætti vin sem lánaði henni fjármuni.

Hún hafi ekki haft hugmynd um að maðurinn hafi skráð fjármunina sem gjafir þegar hann sendi þá. Spurð hvers vegna féð hafi verið lagðt inn á hennar persónulega reikning en ekki fyrirtækið segir hún manninn hafa viljað haga því þannig.

Greiddi skuldir í stað þess að fara í gjaldþrot

Spurð um lánasamning kveðst hún hafa þurft að senda einkaritara mannsins gögn um skuldir fyrirtækisins enda hafi hún ekki fengið krónu umfram það sem hún skuldaði.

Hún hafi greitt allar skuldir fyrirtækisins í stað þess að fara í gjaldþrot. Þá kveðst hún á einhverjum tímapunkti hafa farið til Bahamaeyja þar sem yfirlýsing um lánveitingu mannsins til hennar hafi verið prentuð út. Hún hafi þó ekki það skjal í höndunum sjálf.

Bar ákæruvaldið skilaboð milli konunnar og mannsins undir hana þar sem maðurinn biður hana að hætta að biðja sig um peninga og kveðst konan þá hafa fallist á það. Lögfræðingar hans og trúnaðarmenn hafi tekið yfir fjármuni hans til að koma í veg fyrir fleiri fjárveitingar.

Ákæruvaldið fer fram á að konan greiði um 63 milljón króna sekt, þ.e. þreföldun vangreidds tekjuskatts og útsvars, og hljóti 10-12 mánaða fangelsisdóm.

Vissi ekki að gjafir væru skattskyldar

Þá kom dóttir konunnar einnig fyrir dóminn og hafði svipaða sögu að segja og móðir sín. Hún játar aftur á móti sök og kveðst einfaldlega ekki hafa vitað að gjafir væru skattskyldar. Hún hafi ekkert séð að því að taka á móti gjöfum frá manni sem hafi verið henni eins og faðir.

„Ég þekki fullt af stelpum sem hafa fengið bíla og peninga frá pöbbum sínum. Ég bara sá ekkert að þessu,“ sagði hún fyrir dómnum í gær.

Samtals lagði maðurinn 29.449.900 krónur inn á konuna á árunum 2015 og 2017, en með því að gefa gjafirnar ekki upp sem slíkar í skattframtali komst hún hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar að fjárhæð samtals 10.772.260.

Kveðst hún hafa haft samband við manninn fyrir hönd móður sinnar árið 2014 enda hafi henni þótt fáránlegt að sjá fyrirtæki móður sinnar fara á hausinn þegar þær þekktu einstakling sem gæti mögulega aðstoðað. Segir hún móður sína hafa verið of stolta og feimna til að biðja manninn um aðstoð sjálf.

Gjafir teljast til skattskyldra tekna á Íslandi, séu þær umfram …
Gjafir teljast til skattskyldra tekna á Íslandi, séu þær umfram verðmæti hefðbundinna tækifærisgjafa. Er deilt um það í málinu hvort um gjafir eða lánveitingar hafi verið að ræða. mbl.is/Iðunn

„Mitt markaleysi sem hefur komið mér hingað“

Maðurinn hafi þó verið boðinn og búinn til að rétta fram hjálparhönd til þeirra mæðgna og óskað eftir yfirliti yfir skuldir fyrirtækisins til að senda þeim nákvæma upphæð upp í það.

Segir hún hann einnig hafa sent henni persónulega fjárupphæðir á þessum tíma. Hún hafi aftur á móti ekki kunnað að fara vel með slíkar fjárhæðir og segir þær löngu horfnar.

„Mér fannst gaman að gefa af mér. Það er mitt markaleysi sem hefur komið mér hingað í dag,“ sagði hún við skýrslutökuna.

Þá ber hún þriðju og yngstu konunni ekki góða söguna en hún telur hana hafa þegið fjármuni frá manninum á gjörólíkum forsendum en þær mæðgur. Hún hafi þekkt stúlkuna síðan hún var barn og iðulega haft hana hjá sér og tekið hana með í ferðir.

„Hagar sér ekki svona nema að fá eitthvað í staðinn“

Þá hafi hún tekið hana með sér í ferð til Bahamaeyja og kynnt hana fyrir manninum. Stúlkan hafi í kjölfarið byrjað að koma oftar með í ferðir til mannsins og byrjað að vingast við hann.

Í síðustu ferðinni, þegar stúlkan var um 18-19 ára, hafi þeim mæðgum fundist hún orðin ansi frökk við að biðja um og taka á móti peningum og dýrum gjöfum frá manninum.

Segir konan sér því hafa verið mjög niðri fyrir er hún frétti í gegnum barnsföður sinn að stúlkan hefði fengið eina milljón bandaríkjadali eða tæpa 131 milljón frá manninum.

„Hann hagar sér ekki svona nema að fá eitthvað í staðinn.“

Aðspurð kveðst hún þó ekki hafa orðið vitni að samningaviðræðum mannsins og yngri konunnar heldur hafi hún heyrt það úr ýmsum áttum í kjölfarið, þar á meðal frá konunni sjálfri.

Konan játaði sök eins og áður sagði en ákæruvaldið fer fram á að henni verði gert að greiða um 32 milljónir í sekt, þ.e. þreföldun vangreidds tekjuskatts og útsvars, og mælist til 6-8 mánaða fangelsisdóms.

Gaf upp lánið í skattframtalinu

Var unga konan næst til að gefa skýrslu en hún neitar alfarið sök. Er mál hennar ólíkt máli þeirra mæðgna að því leyti að hún gaf allan tímann upp fjármagnið sem maðurinn sendi henni sem „aðrar skuldir“ í skattframtali sínu en skatturinn telur engu að síður að um hafi verið að ræða gjöf í dulbúningi láns.

Þótti rannsakendum héraðssaksóknara og Skattsins ótrúverðugt að um væri að ræða lán í ljósi þess hve há upphæðin er, ekkert sé að veði og engir vextir hvíli á láninu né liggi fyrir greiðsluáætlun á þeim 40 árum sem konan hefur til að greiða lánið til baka.

Maðurinn greiddi konunni 130.806.410 krónur árið 2016 og 608.500 krónur árið 2017 eða samtals 131.414.910. Er konunni því gefin sök fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram skattskyldar gjafir á skattframtölum sínum og komist hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar, að fjárhæð samtals 59.123.825 krónur á tekjuárinu 2016.

Verjandi konunnar segir það með ólíkindum að konunni séu gefnar slíkar sakir enda liggi fyrir lánasamningur sem sé undirritaður af konunni og manninum og tveimur vottum um borð í snekkjuferð í september árið 2016.

Vildi lána peninginn eftir að hafa heyrt sögu konunnar

Konan segir hlýtt og gott samband hafa myndast á milli sín og mannsins í gegnum árin. Hún hafi sagt honum sögu sína sem einkennist af erfiðri barnæsku og einnig sagt honum frá draumum sínum um framtíðina. Það hafi leitt til þess að hann vildi lána henni peninga til að aðstoða hana við að kaupa sér heimili og stofna fyrirtæki.

Segir hún viðmót rannsakenda Skattsins hafa einkennst af hroka og óvilja til þess að sýna lánasamningum, sem sé vissulega óhefðbundinn, skilning.

Aðspurð neitaði hún því að hún og maðurinn hafi verið par eða náin með slíkum hætti. Lánið hafi hann einfaldlega veitt henni af góðvilja og í trú um að hún myndi greiða það til baka.

„Ég átti bara að greiða það þegar ég væri komin í stöðu til að greiða þetta.“

„Stærsta gjöf sem ég hef gefið“

Voru nokkur atriði sem saksóknari bar undir konuna sem rannsakendum þótti ekki styðja rök hennar um að um væri að ræða lán.

Fyrst og fremst lýtur það að smáskilaboðum á milli konunnar og mannsins og einkaritara mannsins þar sem fjárveitingin er ávallt umtöluð sem gjöf. Skatturinn gerði síma konunnar upptækan í húsleit og frysti eigur hennar en þar var m.a. að finna skilaboð frá manninum þar sem segir:

„Gerir þú þér grein fyrir því að þetta er stærsta gjöf sem ég hef gefið?“

Segir konan manninn fyrst og fremst hafa talað um fjárveitinguna sem gjöf vegna þess hve stórt tækifæri hann hafi óneitanlega veitt henni í ljósi þess að lánið ber ekki vexti og að hún hafi langan tíma til að greiða það til baka.

2.000 dalir í umslagi 

Þá hafi hann einnig beðið hana um að segja einkaritara sínum að um væri að ræða gjöf en ekki lán til þess að hún myndi ekki flækja málin og inna hana eftir því að greiða til baka sem fyrst.

Þykir það einnig athugavert að skuldin hafi verið skráð lægri í seinna skattframtali konunnar en að ekki væru færslur sem sýndu fram á að lánið hafi verið greitt til baka.

Hafði konan í fyrstu greint starfsmönnum Skattsins frá því að hún hefði sent peningana í gegnum Western Union en síðar breytt frásögn sinni og sagst hafa safnað 2.000 Bandaríkjadölum, eða sem nemur 1,5 milljónum króna í umslag og fært manninum það í ferð til Bahamaeyja.

Fjölskyldan og einkaritarinn í uppnámi

Voru einnig lögð fram skilaboð frá einkaritara mannsins til yngstu konunnar þar sem hún sakar allar þrjár krónurnar um að hafa notfært sér manninn. 

„Fjölskyldan er í miklu uppnámi. Það er verið að fylgjast með öllum símum og fartölvum hans. Það sem þið stelpurnar hafið gert honum er viðurstyggilegt. Þið hafið allar notfært ykkur hann,“ sagði í skilaboðunum. Sögðu næstu skilaboð að hún skildi láta manninn vera héðan í frá.

„Elskan, ég hef leyft þér að njóta vafans. En hann gaf þér eina milljón Bandaríkjadali. Eina milljón Bandaríkjadali! Vinsamlegast haltu þig fjarri honum. Okkar fókus núna er að hugsa um Billy.“

Bentu konan og verjandi hennar aftur á móti á að einkaritarinn hefði síðan þá dregið ummælin til baka og sent yngstu konunni skilaboð þar sem hún baðst afsökunar á hegðun sinni. Hún hefði misskilið fyrirkomulagið og ranglega sett hana á sömu hillu og tvær aðrar konur sem hefðu misnotað sér manninn.

Ekki náðst í Billy og einkaritarann

Verjandi konunnar segir marga annmarka á rannsókn Skattsins og að héraðssaksóknari hafi brugðist hlutlægnisskyldu sinni í málinu.

Til að mynda hafi rannsakendur gefist upp á að hafa samband við manninn og einkaritara hans til að sjá hvort færslum og skýringum bæri saman. Þess að auki ríki skattaupplýsingasamningur á milli Bahamaeyja og Íslands sem hafi ekki verið beitt.

Þá liggi lánasamningur fyrir á milli tveggja aðila og segir hann ekki forsendur til að víkja frá þeim einkaréttarsamningi.

Til þess þurfi að sanna að samningur sé ekki gildur, að efni samningsins hafi ekki raunverulega átt sér stað eða að um náin tengsl milli samningsaðila sé að ræða. Eigi það ákvæði ekki við um vinasambönd.

Þá segir hann rannsakendur hafa brugðist hlutlægnisskyldu sinni sökum meintra tengsla konunnar við manninn og hafi skýrsla í málinu meðal annars lýst þeim sem „nánum vinum“ án frekari skýringa á því hugtaki.

„Ekkert eðlilegt fólk“ geti greitt slíkt lán

Þess að auki hafi rannsakendur ítrekað sagt lánveitinguna ótrúverðuga vegna þess hve óvenjuleg hún er, m.a. vegna þess að konan hafi 40 ár til að greiða lánið til baka og geti þess vegna greitt alla upphæðina þá. Þá verði maðurinn 105 ára. Segir verjandi það liggja í augum uppi að lánið verði greitt til baka til dánarbús hans verði hann fallinn frá.

Einnig segir hann að rannsakendur hafi ítrekað blandað eigin högum og íslensku lánaumhverfi í málið. Til að mynda hafi einn rannsakandi sagt að „ekkert eðlilegt fólk“ gæti greitt slíkt lán til baka og að annar hafi bent á hve óvenjulegt væri að lánið væri vaxtalaust.

Sagði verjandi það liggja í augum uppi að um sé ræða persónulegt lán sem sé tekið út á traust milli einstaklinganna og væri því öðrum skilyrðum háð en hefðbundin lán frá stofnunum. Þó sé alls ekki óalgengt að fólk taki lán til 40 ára í banka eða taki svokölluð kúlulán þar sem öll upphæðin sé greidd í lokin.

Konan hefði í öllu staðið við sitt, keypt hús og stofnað fyrirtæki sem gengi vel og hafi ávallt staðið undir greiðslum á öðrum lánum og því ekkert sem gæfi til kynna að hún hygðist ekki greiða lánið til baka.

Fer ákæruvaldið fram á að konunni verði gert að greiða um 177 milljónir í sekt, þ.e. þrefalda upphæð vangreidds tekjuskatts og útsvars, og mælist til að hún verði dæmd í 22-24 mánaða fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert