Ekki öll fyrirtæki sek

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), hvetur fólk til að passa sig í umræðunni um vinnumansal.

Í umræðum í upphafi ráðstefnu Alþýðusambands Íslands og SA um vinnumansal á Íslandi sagði hún SA vera og alltaf verða málsvara heilbrigðs vinnumarkaðar þar sem bæði lög og kjarasamningar verði virtir.

„Við megum ekki ganga út frá því að öll fyrirtæki séu sek fyrir fram,“ sagði hún og lagði einnig áherslu á að ekki öll kjarasamningsbrot væru vinnumansal en áréttaði að hún væri ekki að verja kjarasamningsbrot.

Sigríður sagði að hnitmiðaðar og árangursríkar aðgerðir þyrfti í þeim tilfellum sem um ræðir.

Mikils virði að standa vörð um vinnumarkaðinn

Hún sagði mikilvægt að átta sig á að allir bera ábyrgð og að þverfagleg samvinna og samstarf skipti öllu máli í baráttunni við að uppræta vinnumansal.

Sigríður sagði gott að finna og heyra áhuga ráðherra á málefninu.

„Við höfum undanfarna áratugi, bæði SA, ASÍ og stjórnvöld byggt upp gríðarlega öflugan öruggan og góðan vinnumarkað. Það er mikils virði að standa vörð um hann.“

Sagði hún að gríðarlega miklar breytingar hafi átt sér stað á undanförnum árum. „Við megum ekki vera barnaleg – auðvitað kemur þetta hingað. Við þurfum að taka höndum saman gegn vinnumansali, fyrst og síðast fyrir þolendur en líka fyrir fyrirtækin.“

Sigríður sagði að félagsmenn SA fordæmi vinnumansal og hvatti hún öll fyrirtæki til að taka ábyrgð á virðiskeðjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert