Jón í Viðreisn: „Ég er mikill anarkisti og frjálshyggjumaður“

„Ég hef alltaf verið pólitískur. Í forsetakosningabaráttunni fann ég hvað mér finnst þetta rosalega skemmtilegt. Því fór ég að skoða möguleika á því að fara á þing,“ segir Jón Gnarr, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og borgarstjóri í Reykjavík. Hann hyggst bjóða sig fram til alþingiskosninga fyrir hönd Viðreisnar á næsta kjörtímabili.

Hann segir að Viðreisn hafi orðið fyrir valinu eftir kosningapróf sem hann tók á netinu.

„Ég tók eitthvað kosningapróf á netinu sem heitir Áttavitinn fyrir síðustu kosningar. Það var nokkuð ítarlegt þar sem maður svarar 40 spurningum. Þar kom ég út sem Viðreisnarmaður upp á 70%,“ segir Jón sposkur.

Hann segist eiga marga vini og kunningja í flokknum og ræddi við þá áður en hann tók ákvörðun.

„Ég skoðaði þetta og ég fann að ég er mjög tilbúinn í þetta. Þetta er eitthvað sem mig langar til að gera og ég held að ég eigi mikið erindi og tel mig koma mikilvægum hlutum áleiðis sem mér finnst mikilvægir,“ segir Jón.

Langar í menntamálaráðherrastólinn

Spurður segist Jón vilja beita sér fyrir frelsi og að skólakerfið sé honum hugleikið.

„Ég vil vinna að frelsi einstaklinga til að velja og hafna. Þetta á við um margt eins og t.d. skólakerfið sem er nátengt lífshamingju og líðan ungs fólks í dag. Ég hef talað um mína persónulegu reynslu af skólakerfinu og mér finnst að það þurfi að opna kerfið þannig að það bjóðist fleiri möguleikar en að falla inn í ákveðið hólf,“ segir Jón.

Hann segir því að embætti menntamálaráðherra væri hans helsti draumur á þingi en einnig að hafa áhrif á menntakerfið sem Íslendingar eru að þróa.

„Mér finnst mjög víða mega opna og liðka fyrir annars konar hegðun en sú sem telst sú eina og rétta í skólastofunni,“ ítrekar Jón.

Neikvæðar afleiðingar af ákveðinni hugmyndafræði

Hann segist helst horfa til grunnskólastigsins í þessu samhengi sem og framhaldsskólastigsins að einhverju leyti.

„Við sjáum mjög neikvæðar afleiðingar af ákveðinni hugmyndafræði. Nemendum í alls kyns iðnnámi hefur fækkað, sem er synd. Svo er brottfall krakka úr framhaldsskóla allt of mikið,“ segir Jón

Hann segir að reynsla sem hann varð fyrir á tíma sínum þegar hann var að leika í Leikfélagi Norðurlands hafi haft mikil áhrif á sig. Þá báðu kennarar í VMA hann um að koma og ræða hvernig hægt væri að sporna gegn brottfalli nemenda, sérstaklega í ljósi þess að hann var sjálfur með brotna skólagöngu.

„Þetta snerti mig mjög djúpt og var löngu áður en ég var búinn að tilkynna forsetaframboð.“

Deilir ekki hugsjónum Samfylkingar

Jón hefur áður verið á lista fyrir alþingiskosningar. Þá var hann í heiðurssæti á lista Samfylkingar ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. En hann segir hugmyndafræði Samfylkingarinnar ekki eiga við sig.

„Ég er mikill anarkisti og frjálshyggjumaður og legg mjög mikið upp úr frelsi einstaklinga yfir sínu persónulega lífi og þessari grundvallarhugmyndafræði að fólk eigi að njóta frelsis svo lengi sem það rýrir ekki frelsi annarra. Og að persónulegt frelsi okkar komi ekki ríkisvaldinu við nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það aðgreinir mig frá sósíaldemókrötum,“ segir Jón.

Tilbúinn í leiðindin

Nú hefur þú sagt að þér hafi leiðst margt þegar þú sast í borgarstjórastólnum. Hvernig heldurðu að þú bregðist við leiðindum inni á þingi?

„Leiðindi eru bara leiðindi. Ég set þau ekki fyrir mig þó að sumt geti verið langdregið og erfitt. Margt verður leiðinlegt en annað ekki.“

Hann segir einnig aðstæður breyttar í sínu lífi samanborið við það þegar hann hætti sem borgarstjóri. Þá hafi ýmislegt skapandi beðið sem hann fann að hann þyrfti að sinna. Bæði skriftir og leiklist. Honum finnist hann búinn að sinna því í bili í það minnsta.

Aldur og þroski

„Ég stefni að því að vinna sem þingmaður að aðalstarfi og vinna í einhverju skapandi til hliðar. En ég er svolítið að segja skilið við skapandi geirann. En svo er þetta líka aldur og þroski. Mér finnst tímasetningin góð og mér finnst ákveðin upplausn í pólitíkinni og þar er umhleypingasamt. Fylgið er að taka breytingum á milli flokka. Því finnst mér þetta spennandi. Ég hlakka til að takast á við þetta,“ segir Jón.

Hann segir að hann hafi fengið mastersnám í stjórnsýslu, að hafa verið borgarstjóri. Hann búi að því ef hann hlýtur brautgengi á þingi.

„Ég var búinn að lofa ísbirni í húsdýragarðinn en það fyrsta sem ég gerði þegar ég settist í stólinn var að hamra saman fjárhagsáætlun fyrir borg sem lent hafði í fjárhagshruni,“ segir Jón Gnarr og hlær en segir það jafnframt dæmi um lærdóminn af starfi borgarstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert