Kærði sig inn í yfirlýsinguna

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mig langar að kæra mig inn í þessa yfirlýsingu,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, þegar honum var gefinn kostur á að bregðast við yfirlýsingu ASÍ og SA í baráttunni gegn vinnumansali sem kynnt var ráðherra á ráðstefnu um vinnumansal á Íslandi.

Guðmundur Ingi sagði frá því í umræðum í upphafi ráðstefnunnar að þegar ráðherrar komi með mál inn á ríkisstjórnarfund eða skipi starfshóp um eitthvað málefni sé það stundum svo að aðrir ráðherrar hafi áhuga á að taka þátt í þeirri vinnu og þá kæri þeir sig gjarnan inn í málið.

„Ég tek yfirlýsinguna og ræði við dómsmálaráðherra því það væri miklu flottara að gera þetta þríhliða og gefa út aðra yfirlýsingu sem væri þríhliða. 

Nú verðið þið að taka mig á orðinu. Við þurfum að reyna að gera þetta sameiginlega allir þessir þrír aðilar sem hér eru og ég bíð upp í þann dans,“ sagði Guðmundur Ingi.

Of ríkar kröfur til að hægt sé að fella dóma

Ráðherra sagði ábyrgð stjórnvalda mjög mikla og tók undir orð Finnbjarnar A. Hermannssonar, forseta ASÍ um að vinnumansal sé alvarlegt krabbamein í samfélaginu. Ítrekaði hann þó að umræðan snúist um svörtu sauðina en ekki allt atvinnulífið. 

Sagðist hann finna til reiði og sagði stöðuna ósanngjarna og svo ljóta. „Þetta er réttmæt reiði og vonbrigði yfir að samfélagið okkar sé á þeessum stað. Við þurfum að finna þeirri orku farveg í að gera betur.“

Guðmundur Ingi sagði það skipta máli að mál geti farið alla leið í dómskerfinu því það hafi fælingarmátt. Sagði hann að margra mati of ríkar kröfur í mansalsákvæðum almennra hegningarlaga til þess að hægt sé að fella dóma í vinnumansalsmálum.

Sagði hann að breytingar hafi verið gerðar á hegningalögum á Norðurlöndunum þannig að hægt sé að taka á vinnumalsalsmálum með öðrum hætti en t.d. mansalsmálum á borð við mál sem tengjasst vændi og öðru. Sagði hann slíkar breytingar gætu hjálpað okkur að takast á þessu meini í íslensku samfélagi.

Samningur var nýlega gerður milli Bjarkarhlíðar, dómsmálaráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Ráðherra sagði frá því að þar yrði tryggt eitt stöðugildi en Bjarkarhlíð hefur gegnt hlutverki einskonar samhæfingaraðila í málum á borð við vinnumansalsmál.

„Pottþétt ekki nóg“

Ráðherra fór þá yfir þær lagabreytingar sem hafa verið gerðar í málaflokknum og sagði að meðal annars hafi samstarfsnefnd stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins verið fest í lög í vor. Nefnd sem á að gera tillögu að stefnu og aðgerðum gegn brotum á vinnumarkaði. Sagði hann það mikilvægt því formlegan lögfestan vettvang hafi vantað sem segi okkur hvað eigi að gera.

Á sama hátt hafi verið lögfestur samstarfsvettvangur Vinnueftirlits, lögreglu og skattsins, sem hafa unnið mikið saman í málefnum sem tengjast brotum á vinnumarkaði. Sagði hann einnig mikilvægt að lögfesta slíkt samstarf. 

Guðmundur ræddi þá auknar heimildir Vinnueftirlits til að beita viðurlögum, meðal annars vegna alvarlegra brota sem verða á vinnustöðum, sem varða öryggi og vellíðan fólks. Hann sagði þá að eftirlit með starfsmannaleigum og útseldum starfsmönnum hafi verið fært frá Vinnumálastofnun til Vinnueftirlits með lögum í vor.

Sagði Guðmundir Ingi þessar breytingar allar skipta máli en þær væru pottþétt ekki nóg, eins og hann orðaði það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert